135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:09]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um vímuefnavandann þó að ég geti ekki tekið undir það sem málshefjandi kallaði vímuefnafaraldur. Þó að ástandið sé hroðalegt og hvert einstakt tilfelli sé mjög alvarlegt held ég að við eigum að viðurkenna að margt hefur þokast í rétta átt í þessum málum undanfarið, sérstaklega þó hvað varðar yngri aldurshópinn, grunnskólaaldurinn. Það réttlætir í sjálfu sér ekki það að við höllum okkur aftur á bak og látum eins og ástandið sé ekki slæmt.

Það er tvennt sem við þurfum ávallt að skoða þegar við ræðum vímuefnavandann, annars vegar forvarnirnar, eins og hér hefur verið komið inn á, og úrræði sem við getum gripið til þegar einstaklingar eru komnir í vandræði, neyslu eða afbrot. Við þekkjum umræðuna um forvarnirnar. Í rauninni vitum við sem til þekkjum að þetta snýst ekki um þekkingu krakka, þetta snýst um það að þau láta vaða eða taka þátt, láta tilleiðast. Það er ekki vegna þess að þau viti ekki um hvað þetta mál snýst. Þess vegna er mjög mikilvægt að samfélagið í heild gefi skýr skilaboð um hvað má og hvað má ekki og þar hefur tekist mjög gott samstarf í grunnskólunum milli foreldra, barna og kennarasamfélagsins.

Það sem er athyglisvert og við þurfum að snúa okkur fyrst og fremst að, og málshefjandi vakti athygli á, er að við þurfum að sjá vandann fyrir, við þurfum að grípa miklu fyrr inn í, við þurfum að hjálpa foreldrum þegar börnin eru komin í vanda. Um það vitum við, oftast í skólanum. Við sjáum börnin sem eru í vandræðum í skólanum, eru með hegðunarfrávik, fjarveru eða skróp, oft komin í minni háttar afbrot. Ein af tillögunum í barnaáætlun ríkisstjórnarinnar er einmitt að innleiða kerfi þar sem fræðsla fyrir starfsfólk uppeldisstofnana en ekki síður til foreldra verður notuð sem leið til að hjálpa fólki til að ungt fólk lendi ekki í þessum vanda.

Ég bind miklar vonir við þá vinnu og treysti á að við stöndum saman um að byggja hana upp. Við höfum dæmi um þetta m.a. í blöðunum í dag þar sem sagt er frá vinnu í Hafnarfirði og við höfum sambærilega (Forseti hringir.) vinnu á Reykjanesi.