135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það er sannarlega ekki vanþörf á. Það vantar auðvitað ekki að í orði kveðnu eru allir jákvæðir, hafa miklar áhyggjur af ástandinu og vilja allt á sig leggja til að kljást við þetta böl sem misnotkun áfengis og vímuefna er og vandamál sem því eru samfara.

En hér er það eins og víðar að það eru ekki bara fögur orð sem gilda, þau draga ein og sér ekki langt. Það sem skiptir máli er hvaða efnislegum tökum samfélagið allt og auðvitað ekki síst stjórnvöld taka þessi mál, hvaða fjármagn er veitt til viðfangsefnisins. Það brennur ekki síst á okkur nú um stundir þegar dæmin æpa á okkur hvaðanæva að um mikinn faraldur, mikinn innflutning fíkniefna og mikil vandamál sem misnotkun þeirra eru samfara.

Forvarnir eru að sjálfsögðu mikilvægar og ég hef áður nefnt hér í umræðum af þessu tagi að það er undarlegt að ekki skuli hafa verið stuðningur við það hér að hækka það hlutfall áfengisgjalds sem rennur til Forvarnasjóðs. Það þýðir heldur ekki að horfa fram hjá þeim sem þegar hafa ánetjast og eru ofurseldir neyslu fíkniefna og áfengis og þurfa á hjálp og stuðningi að halda. Hvernig skyldi vera staðið að málum þá? Er það ekki þannig að sjálft móðurskip meðferðar áfengis- og vímuefnaneytenda í landinu, SÁÁ, býr við mikla rekstrarerfiðleika og hefur missirum saman verið án samninga við stjórnvöld um rekstur sinn? Er það ekki þannig að SÁÁ er að stórum hluta fjármagnað með velvild styrktaraðila og gengur á eigið fé sitt til að halda úti starfsemi sem er þjóðfélaginu ómetanleg en stjórnvöld mættu sannarlega búa betur að?

Það mætti líka gera mun betur en gert er innan t.d. almennu heilsugæslunnar, skólakerfisins og víðar. Ég held að stjórnvöld þurfi að líta í eigin barm og gera meira en hafa um þetta falleg orð. (Forseti hringir.) Það eru hin efnislegu tök samfélagsins sem hérna skipta máli.