135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:25]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég notaði í upphafi orðin „örvandi vímuefnafaraldur“, að við stæðum frammi fyrir því. Það er ekki tekið upp úr hausnum á mér heldur hef ég heyrt okkar fremstu sérfræðinga í þessum málum tala um að við stöndum frammi fyrir þessu núna. Ég held að það sé hið besta sem við stjórnmálamenn gerum, að hlusta á sérfræðinga í þessum málum, á fagfólkið og hvað þarf að gera, hvar fjárveitinga er þörf og hvernig verði best á þessum málum haldið.

Forvarnir eru gríðarlega mikilvægar eins og hér hefur komið fram. En ekki virka allar forvarnir jafn vel. Hvernig greinum við á milli þeirra? Jú, við verðum að greina á milli þeirra með víðtækum rannsóknum, að þetta séu rannsóknartengdar forvarnir þannig að við víkjum af brautum sem við höldum að virki vel en virka ekki vel og förum inn á þær brautir sem rannsóknir og reynsla sýna að raunverulega virka. Það eru ekki endilega ný verkefni heldur þau verkefni sem reynslan sýnir að reynast best.

Það er staðreynd að vistunarúrræði, eftirmeðferð og áfangaheimili bráðvantar fyrir ungmenni á Íslandi í dag. Það er staðreynd. Það er líka staðreynd að þetta er alvarlegur sjúkdómur. Þetta er ekki bara eitthvað sem fólk velur sér eða velur sér ekki. Þetta er alvarlegur sjúkdómur sem hefur gríðarleg áhrif á alla fjölskylduna og snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu.

Það er okkar hlutverk að tryggja að nægt fjármagn sé til staðar fyrir þær leiðir sem virka, fyrir þau meðferðarúrræði sem okkar færasta fólk beitir sér fyrir og bjarga þannig lífum, hjálpa fólki til rísa úr rústum lífsins. Þetta eru hinar raunverulegu varnir Íslands sem við þurfum að leggja áherslu á og tryggja fjármagn til.

Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.