135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

268. mál
[14:50]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var að reyna að afla mér upplýsinga um þessa nefnd varðandi innleiðinguna, notaði tímann til þess og mér var sagt að ekki væri búið að skipa þá nefnd. Hún hefur þannig ekki hafið störf en það er líka rétt að segja frá því og halda til haga að fresturinn til að koma í kring þeim breytingum á lögum sem við þurfum að gera vegna þessarar tilskipunar er tvö ár frá því að öll ríki EES hafa aflétt þeim stjórnskipulega fyrirvara sem er á tilskipuninni. Eftir að við höfum afgreitt það hér, og önnur EES-ríki frá sér, höfum við tvö ár til að vinna að þeim breytingum á lagaumhverfinu sem við þurfum að gera og höfum þá líka þann tíma sem því er samfara til að innleiða þessa tilskipun. Við erum í sjálfu sér ekkert að renna út á tíma en við verðum auðvitað að gera ráð fyrir því að sá hópur sem á að vinna þetta verk verði skipaður sem fyrst og það sé gert ráð fyrir þeim fjármunum sem við þurfum til að geta þá staðið við þessa skuldbindingu á fjárlögum komandi ára.