135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég setti mig á mælendaskrá til þess að taka undir efni þessarar tillögu. Ég er þeirrar skoðunar að fullt efni sé til að taka þetta mál upp og skoða hvað hægt sé að gera til að reyna að tryggja áframhaldandi þróun í þá átt að hlutverk kynja jafnist í sveitarstjórnarmálum rétt eins og annars staðar í þjóðfélaginu.

Það má velta því fyrir sér hvort menn hefðu fremur átt að fara á nýjan leik svipaða leið og farin var með þingsályktunartillögu á 122. löggjafarþingi. Fyrsti flutningsmaður var reyndar sá sami og hér flytur tillöguna en ég naut þess heiðurs þá að vera meðflutningsmaður um almennt átak til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Það var samþykkt og leiddi til nokkurs starfs sem ég held að hafi haft jákvæð áhrif. Hversu mikil þau voru má alltaf deila um en þau voru tvímælalaust í þá átt að halda uppi umræðum um þessi mál og vekja athygli á stöðunni. Það eitt og sér skiptir máli. Hér er fókusinn sérstaklega settur á sveitarstjórnarmálin. Það er full ástæða til þess og að óbreyttu, ef ekki dregur til óvæntra tíðinda, verða næstu almennu kosningar, kosningar til sveitarstjórna, árið 2010 og ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að stjórnmálin voru mikill karlaheimur og karllæg gildi þar allsráðandi og það breytist því miður allt of hægt. Angi af því máli hefur nokkuð verið til umræðu, um að taka í meira mæli kynlaus hlutverk æðstu ráðamanna. Að sjálfsögðu er það gott og gilt en það eru ekki hinir stóru landvinningar í þessum efnum þótt þar sé angi af sama máli sem endurspeglar ákveðinn veruleika, ákveðna liðna tíð sem við viljum helst ekki þurfa að draga með okkur inn í nútímann og inn í framtíðina, að starfsheiti helstu ráðamanna séu öll karlkyns.

Mér finnst helsta umhugsunarefnið að baráttan að þessu leyti sé eins og á fleiri sviðum að staðna á nýjan leik. Því miður er ástæða til að ætla að svo sé. Ef við lítum á hlutföll sem birt eru hér í töflu þá sést að þar eru þrjú tímabil. Það eru þær hörmulegu tölur sem við sáum á fyrri hluta síðustu aldar og allt fram yfir miðbik aldarinnar þar sem hlutur kvenna er hverfandi. Eitthvað 1–15% í sveitarstjórnum eða á Alþingi fram undir 1970–1980. Upp úr 1980 og á 9. áratugnum verður nokkurt stökk og við sjáum tölur af taginu 20–30%. Með kosningum 1998 og 1999 hækka hlutföllin um og yfir 30. Hlutfallið er 29% í sveitarstjórnarkosningum 1998 og tæp 35% í alþingiskosningum ári síðar. En síðan hefur ekkert breyst. Síðan virðumst við hafa staðnað á þessum slóðum með hlutföll á bilinu 30–35% og heldur lækkandi þó því miður í alþingiskosningum, borið saman við kosningarnar 1999.

Þá er spurningin hvort við höfum rekast upp undir þakið illræmda og tommum ekki lengra að óbreyttu. Það þurfi nýja hvata og ný úrræði til þess að knýja hlutina áfram. Það verður m.a. að gera með linnulausri umræðu um þessi mál, með því að vekja nógu oft athygli á því og hafa nógu hátt um þá staðreynd að þessi hlutföll eru ekki boðleg. Við ætlum ekki að sætta okkur við að hlutur kynjanna haldi ekki áfram að jafnast og komist a.m.k. inn fyrir þessi ásættanlegu mörk sem oft er talið að liggi á bilinu 40–60% en helst sem næst fullgildum þætti hvors kyns um sig.

Svíar hafa komist lengst á þessari braut, a.m.k. í kosningum, þar sem þessu er þá ekki sérstaklega stýrt með ákvæðum í stjórnarskrá eða öðru slíku eins og þekkist reyndar í einhverjum ríkjum og hlutur kvenna tryggður beinlínis með þvinguðum hætti. Það er nokkuð sem menn hljóta að taka á dagskrá ef þetta lagast ekki með hvetjandi aðgerðum á frjálsum grunni, þ.e. að ganga lengra í átt að því að knýja slíka þróun fram. Þá má t.d. vísa til umræðna um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja eða opinberra stjórna, nefnda og ráða sem menn hafa lögfest í sumum löndum. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði útilokum engin úrræði í þessum efnum, hversu róttæk sem þau eru, ef þau reynast óumflýjanleg og ekki næst fullnægjandi árangur með öðrum hætti.

Það er mikilvægt að þessum málum þoki fram. Ég hef alltaf varað við því, þótt það sé eðlilegt að menn telji hausa og skoði hlutföll og prósentur, að menn gleymi því ekki að þetta snýst að sjálfsögðu ekki bara um það. Þetta er grundvallaratriði hvað varðar sjálft inntak stjórnmálabaráttunnar og hverra þeirra viðfangsefna sem um er að ræða. Það verður ekki eðlilegt jafnvægi í inntakinu sjálfu, í því sem á dagskrá er, hvað varðar þær aðferðir sem menn beita o.s.frv., nema bæði kynin séu þar á jafnræðisgrundvelli og hlutur hvors um sig um það bil jafnstór. Þá fyrst er hægt að gera sér vonir um að við komumst í burtu frá því feðrasamfélagi sem við erum sprottin úr með þeirri miklu skekkju sem þar var á áherslum, valdahlutföllum og öllu sem máli skipti í þessu sambandi.

Ég held líka að færa megi fyrir því býsna sterk rök, eins og ég leyfði mér að gera í andsvari fyrr í þessari umræðu, við hv. þm. Guðna Ágústsson, að það hafi ekki gengið svo vel hjá okkur körlunum að ekki sé ærin ástæða til að ætla að betri tök á ýmsum málum og farsælli þróun mála í heiminum almennt, jafnt í okkar samfélagi sem og annars staðar, náist við að hlutur kvenna vaxi, að þær komist í aðstöðu til að hafa meiri áhrif á framvindu mála á ýmsum sviðum. Það mun breyta inntaki stjórnmálanna og áherslum. Ég tel gefið að það yrði til hins betra, sérstaklega fyrir gildi og sjónarmið sem hafa átt undir högg að sækja í hinum karllæga heimi. Við getum þar nefnt félagslegar áherslur, velferðarmál og uppeldi og umönnun. Við getum nefnt umhverfismálin, áherslu á frið og baráttu fyrir afvopnun og friði sem körlunum hefur lítið gengið að þoka áfram þar sem þeir véla um. Þeir trúa meira á stálið en minna á manngæskuna og kærleikann, sem líka hefur borið á góma í þessari umræðu.

En ég fagna því að þessi mál séu tekin fyrir og séu hér á dagskrá. Ég mundi gjarnan telja að sú nefnd sem fær málið til meðferðar ætti að huga að því hvort ástæða sé til að gera tillöguna víðtækari, athuga hvort ástæða væri til að endurræsa aðgerðir af því tagi sem farið var í framhaldi af samþykkt þingsályktunar hér á 122. löggjafarþingi, enda að verða 10 ár síðan.