135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[16:19]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skilst að umrædd auglýsingaherferð sé komin í kennslubækur í Bandaríkjunum, hún þótti svo góð. Það er mér minnisstætt þegar ég króaði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, af hérna úti í gluggakistu til að fá hann til að taka þátt í verkefninu. Hann sagði strax já þó að hann vildi ekki fara í skóna. En hann var til í að halda á þeim. Eftirleikurinn varð þá auðveldari, að fá aðra formenn með.

Þessar auglýsingar sköpuðu geysilega mikla umræðu, mjög skemmtilega umræðu, og djúpur undirtónn fylgdi gríninu. Hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur sagt opinberlega að þessi umræða hafi hjálpað henni við að ná árangri í prófkjöri sem þá var fram undan, og það hafa fleiri konur sagt.

Gefin hefur verið út skýrsla þar sem þetta verkefni er skilgreint og því er lýst og myndirnar eru sýndar í þeirri skýrslu. Vestnorræna ráðið tók þessa tillögu upp og var hún samþykkt þar. Það hefur orðið til þess að í Færeyjum stendur nú yfir sambærilegt verkefni sem heitir Demokratia. Í Færeyjum á að kjósa í síðasta lagi 19. frekar en 16. janúar, að mig minnir, þannig að mjög bráðlega verða kosningar til lögþingsins. Í lögþinginu eru einungis þrjár konur af 32, minnir mig, þingmönnum. Ég vona því að það verkefni sem þar stendur yfir, og á rætur sínar að rekja til íslenska verkefnisins, skili árangri. Reyndar er ýmislegt annað sem getur hjálpað konum í Færeyjum. Nú verður kosið í einu kjördæmi en ekki í mörgum kjördæmum. Stærri kjördæmi vinna með konum, ójafnréttið verður augljósara ef kjördæmin eru fá eða eitt.