135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[16:21]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Full ástæða er til að hjálpa konum í Færeyjum til að ná fram jafnrétti á stjórnmálasviðinu. Það hefur verið ótrúlega erfitt fyrir þær að koma að sínum sjónarmiðum og sínum fulltrúum.

Eitt slagorðið, sem við notuðum gjarnan í þessari vinnu okkar, hljóðaði einhvern veginn svo: Ef þú kýst ekki fulltrúa þinn mun einhver annar kjósa fulltrúa sinn sem fulltrúa þinn. Þetta eru mikil sannindi og þetta minnir okkur á að við verðum alltaf að hafa í huga að við erum að kjósa fulltrúa okkar til þings. Við berum ábyrgð á því, hvort sem við tökum þátt í kosningum eða ekki, hverjir sitja í þeim stöðum að taka ákvarðanir á stjórnmálasviðinu. Það er því mjög mikilvægt verkefni fyrir konur, fyrir jafnrétti í landinu, fyrir lýðræðið, að hlutur kvenna verði aukinn jafnt í sveitarstjórnum sem á Alþingi.