135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:13]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir að það hafi verið mælt fyrir þessari tillögu í átta ár. Það er rétt að það er langur tími og mikil þrautseigja í því fólgin og ég veit að þetta mál er mikið hjartans mál í huga Kolbrúnar Halldórsdóttur og ég vil endilega að það komi fram að þótt ég sé ekki sammála þessari þingsályktunartillögu þá er ekki þar með sagt að mér þyki ekki jafnvænt um Þjórsárver og hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Ég held nefnilega að tillagan sé svolítið tvíbent. Mér finnst pínulítið ruglingslegt hvernig þetta er sett fram, þ.e. að annars vegar er verið að tala um að Þjórsárver skuli sem fyrst tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO og hins vegar er verið að tala um virkjanirnar. Í mínum huga er þar um allt aðra umræðu að ræða. Í fyrsta lagi er það að áformum um Norðlingaölduveitu var slegið á frest — og nú veit ég að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir mun ábyggilega svara á eftir að Landsvirkjun hafi ekki sagt að hún yrði algerlega slegin af heldur að henni væri slegið á frest. Ég skil það samt sem áður þannig að það sé vegna þess að tíðarandinn gagnvart Norðlingaölduveitu hafi á þeim tíma verið með öðrum hætti og við því var verið að bregðast að vissu leyti.

Í annan stað er það þannig að virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár eru allt annars eðlis en þær virkjanir sem menn voru að tala um í upphafi, fyrir 30 árum þegar menn voru að horfa á Norðlingaölduveitu. Síðasta tillaga var lögð fram með allt öðrum hætti en sú fyrri og það eru reyndar áhöld um það hvort hún sé yfirleitt innan Þjórsárvera ef við færum þá leið að Þjórsárver yrðu friðuð. Ég get alveg tekið undir með hæstv. fyrrverandi ráðherra, Sigríði Önnu Þórðardóttur, að það eru ýmis sjónarmið þar sem þarf að huga að. Það er ekki rétt að þær virkjanir sem eru neðst í Þjórsá séu á ósnortnu svæði að því leyti til að Þjórsá er mjög svo virkjuð á, eitt mest virkjaða fljót landsmanna. Það varð niðurstaða í rammaáætlun eitt að þær virkjanir sem þarna eru á ferðinni, (Forseti hringir.) séu hagkvæmasti virkjunarkostur í landinu og ég held að það sé rétt að halda því til haga í þessari umræðu.