135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:15]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal hefur áhyggjur af því að ég átti mig ekki á því að allt önnur virkjun sé á teikniborðinu hjá Landsvirkjun en var varðandi Norðlingaölduveitu. Það er alveg rétt, útfærsla Norðlingaölduveitu og lónsins þar hefur tekið miklum breytingum í tímans rás. Upphaflega var hugmyndin að sökkva öllum Þjórsárverum en tíðarandinn hefur sannarlega breyst, eins og hv. þingmaður nefnir, og hefur andstaðan við virkjun í Þjórsárverum leitt til þess að útfærslu hennar hefur verið breytt gríðarlega mikið. Hún hefur hins vegar aldrei verið slegin af.

Við flutningsmenn tillögunnar krefjumst þess að hún verði slegin af og að verin séu friðuð sem landfræðileg heild, ekki það friðland sem nú er til staðar — mörk friðlandsins eins og þau eru núna eru dregin af hagsmunaaðilunum, þau eru dregin sem einhvers konar málamiðlunarlína. Ef við ættum að draga línu sem mundi ná utan um hina landfræðilegu og vistfræðilegu heild veranna væri algjörlega óásættanlegt og ómögulegt að reisa nokkurt lón í námunda við Norðlingaölduveitu því að veitur og skurðir og varnargarðar kæmu þar inn í verin sjálf og mundu rýra náttúruverndargildi veranna. Slík framkvæmd yrði til þess að við kæmumst aldrei með Þjórsárver inn á heimsminjaskrá UNESCO.

Hvað virkjanir neðst í Þjórsá varðar eru þær ekki á óröskuðu svæði, það er alveg rétt. Þar er búsetulandslag, búið hefur verið á bökkum Þjórsár frá ómunatíð, þar er um að ræða landnámsjarðir. Hins vegar færi verulegt land þar undir vatn og Þjórsá yrði þurr á kafla. Það yrði til þess að breyta mjög ásýnd einnar fallegustu sveitar á Íslandi og það er það sem íbúarnir geta ekki hugsað sér.