135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:19]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi það að ekki sé hægt að spyrða þetta svona saman. Það er náttúrlega bara spurning hvernig sjóndeildarhringurinn okkar er og hvað við höfum mikla hæfni til að horfa vítt yfir sviðið. Andstaðan við virkjun í neðri hluta Þjórsár er af sama toga og andstaðan við virkjun uppi í Þjórsárverum, þ.e. fólkið sem andmælir þeim framkvæmdum báðum er búið að fá nóg af ágangi og ásælni gróðahyggjuaflanna. Það eru vissulega þeir sem vilja græða fjármuni á því að virkja þessa spotta í ánni sem ráða för.

Þá er ég komin að hinu atriðinu sem hv. þingmaður nefnir og það er um tök ríkisstjórnarinnar á Landsvirkjun. Við höfum öll tök á Landsvirkjun, það er bara þannig. Í þeirri stjórn eru pólitískt skipaðir fulltrúar sem lúta valdi þeirra sem skipa þá. Þannig getum við farið með sameinaðan vilja Alþingis eða þjóðarinnar í gegnum þá fulltrúa inn á það stjórnarborð. Þaðan er hægt að segja fyrirtækinu fyrir verkum. Við getum, sem fulltrúar þjóðarinnar, haft áhrif á hvernig fyrirtækjum sem þjóðin á sjálf er stjórnað.

Landsvirkjun er tæki til að ná ákveðnum markmiðum. Ef ríkisstjórnin ákveður að hún ætli að ná því markmiði í gegnum Landsvirkjun að Þjórsá verði vernduð og ekki virkjuð þá náum við því markmiði þar. Það er bara svo einfalt í mínum huga.