135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:35]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einungis eitt atriði í andsvari hv. þm. Atla Gíslasonar sem ég ætla að staldra við. Það er skoðun hans á rammaáætlun 1, þeirri vinnu sem þar fór fram, sem hann er ósammála hvað varðar virkjanirnar í Neðri-Þjórsá. Ég ætla ekki að munnhöggvast á við hann um það. Auðvitað höfum við mismunandi skoðanir á ýmsum hlutum en í því tilviki voru helstu sérfræðingar fengnir til að vinna þá vinnu.

Af hverju ætti hv. þingmaður frekar að taka mark á þeirri vinnu sem fer fram í rammaáætlun 2 ef hann vantreystir þeim vísindamönnum sem starfa við þetta? Hvernig eigum við þá að fara í þetta mál? Ég er lögfræðingur og hv. þm. Atli Gíslason er lögfræðingur. Við höfum enga sérþekkingu á þessum hlutum. Við verðum að taka orð vísindamanna trúanleg. Við vitum að það eru skiptar skoðanir um einstaka þætti en niðurstaðan varð sú að þessu væri best borgið í rammaáætlun.

Ef við efumst um og erum ósammála því sem fram kemur í rammaáætlun 1 hvað þetta ákveðna mál varðar, hvað þá um allt annað þar? Hvað þá um þá vinnu sem fer fram í rammaáætlun 2?