135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:36]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins meira um sveitarstjórnarvaldið og sveitarstjórnirnar og það sem þar gerist á þeim vettvangi. Það hefur því miður gerst að það að færa sveitarstjórnum völd í þessum málum hefur skapað mikla úlfúð og ósátt. Það er bara þannig … (KÓ: Voru það mistök?) Já, það voru mistök. Mér þykir það leitt að slík úlfúð og andstaða skuli ríkja innan sveitarfélaga eins og Skeiða- og Gnúpverjahrepps til þessara virkjana og í Flóanum. Ég hefði kosið að þessi kaleikur væri ekki færður sveitarfélögunum sem klýfur sveitarfélögin í tvær fylkingar og skapar ósamstöðu í mörg ár ef ekki áratugi á eftir.

Ég treysti fullkomlega sveitarstjórnum en í þessum tilvikum ættu þær ekki að hafa valdið. Það er sáttamöguleiki í þessu máli og ég hef bent á hann. Það eru rennslisvirkjanir án lóna. Það væri lausn í þessu máli til að lægja þær ófriðaröldur sem þarna hafa risið.

Helstu sérfræðingar þjóðarinnar í þessum málum, sagði hv. þingmaður. Einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar á þessum Hreppaflekum er Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Hann er fremsti sérfræðingur þjóðarinnar á þessu sprungusvæði. Hann mælir gegn þessum virkjunum.

Á dagskrá í dag er þingsályktunartillaga um óháð hættumat á þessu svæði. Það vil ég sjá með færustu sérfræðingum, óháðum færustu sérfræðingum. Leikreglurnar á þessu sviði eru með þeim hætti að þeir sem ætla að virkja kosta til, kalla til sína sérfræðinga og þar fram eftir götunum.