135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:38]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu um friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár. Það sem kemur fyrst og fremst fram í tillögunni er að fallið verði frá áformum um Norðlingaölduveitu og jafnframt að fallið verði frá frekari virkjunum í Þjórsá og hitt að ganga lengra í friðun á Þjórsárverasvæðinu.

Mig langar aðeins, af því að ég hef hlustað á þessar umræður, að fara nokkrum orðum um það fyrirkomulag sem við höfum komið okkur upp við mat á virkjunarkostum. Lengi hefur verið unnið að rammaáætlun 1. Það er áætlun sem menn sættust á sínum tíma á að gera til að meta annars vegar hagkvæmni virkjunarkosta og hins vegar á hvaða hátt viðkomandi virkjanir hefðu áhrif á umhverfið. Það hefur komið fram í þessum ræðustól að rennslisvirkjanirnar með litlum lónum í neðri hluta Þjórsár hlutu einkunn sem við köllum A I, þ.e. þær þóttu mjög hagstæðar og valda mjög litlum umhverfisáhrifum. Þetta er bara niðurstaða úr rammaáætlun 1.

Núverandi ríkisstjórn tók ákvörðun um að kalla eftir rammaáætlun 2 þar sem menn skoðuðu lengra inn í framtíðina hvernig skyldi haga þessum málum. Þá dettur mér í hug að spyrja hv. flutningsmenn: Ætla menn að taka mark á rammaáætlun 2? Segjum að það yrði niðurstaða á rammaáætlun 2 að neðri hluti Þjórsár væri enn í hæsta gæðaflokki, út frá umhverfismálum og hagkvæmni. Þá vil ég fá að vita: Á ekki að taka mark á þeirri rammaáætlun? Eigum við kannski að hætta því verki vegna þess að menn verða á móti því, alveg sama hver niðurstaðan er? (AtlG: Ég er það nú þegar.) Mér finnst að þetta sé grundvöllurinn, að menn átti sig á því hvort menn þeir ætli að taka mark á þessum rammaáætlunum. Það er nokkuð sem er mjög nauðsynleg að við förum yfir.

Háttvirtir fulltrúar Vinstri grænna hafa talað um að það væri illskásti hluturinn, að virkja neðri hluta Þjórsár, gagnvart umhverfismálunum. Nú er allt í einu er búið að snúa blaðinu við.

Mig langar örlítið að koma líka inn á Norðlingaölduveituna. Við þekkjum þá miklu umræðu og þá miklu vinnu sem þar hefur átt sér stað. Er það ljóst í hugum allra að Norðlingaölduveita þurfi endilega að raska Þjórsárverunum? Ég er ekki viss um að allir séu sammála því, að því megi ekki koma þannig fyrir að Norðlingaölduveita verði búin til en Þjórsárver jafnframt stækkuð, friðland þeirra. Í dag er friðlandið ekki á þeim svæðum þar sem Norðlingaölduveita er fyrirhuguð. Við þurfum að ræða líka að ræða þau mál í tengslum við rammaáætlun 2.

Þá langar mig aðeins að nefna, vegna þeirrar miklu umræðu sem er um loftslagsmál og um Kyoto-bókunina, að ég geri mér glögga grein fyrir því að á Íslandi erum við ekki að hætta að virkja, hvorki vatnsorku né gufuafl. Við munum áfram hafa þörf fyrir meiri orku. Það held ég að sé alveg augljóst. Árið 2020, 2030, 2040 o.s.frv. þurfum við meiri orku. Samfélag okkar þarf á meiri orku að halda. Erum við tilbúin að ákveða að þeir orkugjafar sem við ætlum að leita verði ekki hinir endurnýjanlegu orkugjafar sem við ráðum yfir í dag, vatnsaflið og gufan? Ætlum við að leita í olíu eða annað eldsneyti? Mér finnst að við þurfum að svara þessari spurningu um leið og menn hvetja ríkisstjórnina til að loka öllu og læsa og segja að ekkert megi gera. Við þurfum að hugsa þetta svolítið heildstætt fyrir framtíðina. Þó kann vel að vera að fara megi með öðrum hætti í ýmsar framkvæmdir.

Á ferðalagi sem umhverfis- og iðnaðarnefnd fór um þessi svæði í sumar kom fram á ágætum fundi hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að nú væru landeigendur, íbúar Þjórsár, búnir að leggja nóg af mörkum til samfélagsins í virkjunarmálum og ekki ætti að virkja meira, nú ætti að virkja annars staðar. Ég held að það væri ágætt að fá að heyra það frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur hvað hún átti við og hvar við ætlum að virkja ef það er ekki samkvæmt rammaáætlun þar sem hæsta mat er fengið? Hvar ættum við að virkja? Hvaða vatnsafl hafa Vinstri grænir hugsað sér að virkja í framtíðinni? Þörfin verður klárlega fyrir hendi.

Frú forseti. Síðar á þessum fundi, sem ég mun ekki geta tekið þátt í umræðu um, er önnur þingsályktunartillaga sem fjallar um óháð áhættumat þær virkjanir sem menn vilja banna eða biðja um að verði frestað. Þær ganga svolítið hvor á móti annarri, þessar tvær þingsályktunartillögur. Það er eins og menn gefi sér að fyrri þingsályktunartillagan nái ekki fram að ganga og þá er kannski nauðsynlegt að seinni tillagan komi fram. En þær eru svolítið hvor á móti annarri.

Í lokin langar mig að geta þess, frú forseti, að þeir sem búa á svæðinu við Þjórsá þar sem virkjanaframkvæmdir eru nú þegar og þær sem eftir eiga að koma hafa haft mjög mikinn hug á að sú orka sem yrði virkjuð og beisluð hér eftir í Þjórsá yrði notuð til atvinnuuppbyggingar heima í héraði. Hér hafa verið undirbúin ýmis mál hvað það varðar. Ég vil halda því til haga vegna þess að á því svæði sem hér um ræðir er atvinnulífið á vissan hátt einhæft. Þar eru ekki há meðallaun og það mundi hjálpa gríðarlega til ef þar yrði til orkufrekur iðnaður í hvaða formi sem það yrði sem mætti verða til að efla þar atvinnulíf.