135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:46]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt að heyra hve hv. þingmaður hefur kynnt sér illa rammaáætlun bæði 1 og 2. Rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma var tilbúin fyrir nokkrum árum og er í raun og veru einungis kerfi til að raða og flokka virkjunarkosti. Hún er aðferðafræði og í henni voru ákveðnir margir kostir, fyrst og fremst í vatnsafli. Það var mikil vinna og kostaði bæði fjármuni og mannafla að finna leiðina til þess að flokka umhverfisáhrif, náttúruverndargildi, áhrif á efnahag, áhrif á þjóðlíf og þar fram eftir götunum, þeirra kosta sem metnir voru í rammaáætlun 1.

Rammaáætlun 1 hefur hins vegar aldrei fengið neina meðhöndlun og hún hefur aldrei verið hluti af stefnumörkun stjórnvalda. Við, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, höfum hins vegar kallað eftir því að hún verði það og hún fái formlega umfjöllun og formlega afgreiðslu. Ríkisstjórnin hefur ekki mátt heyra það minnst af því að hún hefur viljað hafa þetta allt saman í sinni hendi og kíkja kannski ofan í skúffuna þar sem rammaáætlunin er geymd, mögulega, og tékka á hvar í röðinni viðkomandi kostur sem þeir voru búnir að ákveða fyrir fram að fara í, væri í rammaáætlunarplagginu.

Rammaáætlun 2, annar hluti rammaáætlunar, er bara til þess að meta þá kosti sem ekki voru metnir í rammaáætlun 1, eftir sömu aðferðafræði og gert var þar. Þá er ég að tala um vatnsaflið. Síðan er rammaáætlun 2 fyrst og síðast til þess að taka jarðvarmann og meta hann, því að hann var skilinn eftir í rammaáætlun 1 eða um hann var svo lítil vitneskja, upplýsingar svo slæmar, að ekki var hægt að raða kostunum í jarðvarmanum. Þetta (Forseti hringir.) er verið er að gera í rammaáætlun 2. Svo eigum við eftir að taka báðar þessar rammaáætlanir (Forseti hringir.) og ákveða hvort við ætlum að fara eftir þeim.