135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:51]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki skilið við þetta mál án þess að fjalla ítarlegar um það. Ég óskaði eftir því að tilteknir hæstv. ráðherrar væru viðstaddir en þeir hafa ekki séð sér það fært eða skilaboð hafa ekki borist.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill upplýsa að skilaboðum var komið til þeirra ráðherra sem hv. þingmaður nefndi en forseti getur líka upplýst að það er það eina sem er í valdi forseta í slíku tilfelli.)

Ég vil taka það fram að nú liggur fyrir að samningaumleitanir Landsvirkjunar við ýmsa landeigendur við Þjórsá vegna fyrirhugaðra virkjana hafa siglt í strand. Það gildir um eigendur Skálmholtshrauns, sumarbústaðaeigendur og fleiri. Af þessum virkjunaráformum verður ekki nema eignarnám sé fram knúið. Það blasir við varðandi þá tilgreindu jörð sem ég nefndi, Skálmholtshraun, að jörðin verður allt að því verðlaus nái virkjunaráform Landsvirkjunar fram að ganga. Það gera Hreppaflekarnir sem ég minntist á í fyrri ræðu minni og mjög breytt grunnvatnsstaða.

Maður spyr sig í ljósi þeirra stórfelldu umhverfisspjalla sem um ræðir hvort stjórnarskráin heimili yfir höfuð eignarnám. Samkvæmt 71. gr. í stjórnarskránni er eignarrétturinn friðhelgur og það má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema að almenningsþörf krefji, lagafyrirmæli komi til og fullt verð. Hér skiptir auðvitað mestu máli að meta almenningsþörfina. Við það mat verður að gæta meðalhófs og jafnræðis og það er deginum ljósara að persónulegir hagsmunir einstakra manna og fyrirtækja, þar með talið Landsvirkjun eða álbræðslur, eða fjárþörf ríkis og sveitarfélaga eru ekki næg ástæða til eignarnáms.

Ég vil líka halda því sérstaklega til haga, frú forseti, að heimildir til að skerða mannréttindi, þar með talið friðhelgi eignarréttar, ber að túlka þröngt því að þessi mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum en ekki einokunarfyrirtækjum. Túlka ber allan vafa einstaklingum og mannréttindum í hag.

Maður spyr sig af þessu tilefni hvort almenningsþörf sé á því að eyðileggja með óafturkræfum hætti náttúruperlur Þjórsár og næsta nágrennis og stefna lífríki og búsetu þar í hættu. Maður spyr sig hvort almenningsþörf sé á því að sniðganga alþjóðasamninga og íslensk lög um sjálfbæra þróun, mengunarbætur og varúðarregluna. Er almenningsþörf á því að láta náttúruna ekki njóta vafans um verulega flóðahættu og hækkun grunnvatnsstöðu og eyðileggingu laxastofnsins í Þjórsá og lífríkis almennt? Er almenningsþörf á því að virkja í þágu erlendra einokunarálbræðslna og selja raforkuna á útsöluprís til þeirra meðan almenningur, bændur og innlendir atvinnurekendur greiða margfalt hærra raforkuverð? Er almenningsþörf á því að selja raforkuna til mengandi þungaiðnaðar og til verðmætasköpunar erlendis, fullvinnslu erlendis? Er almenningsþörf fólgin í því að nýta alla okkar mengunarkvóta í einsleitar mengandi álbræðslur og hafa öll eggin í sömu körfu? Er almenningsþörf á því að sjá til þess að Ísland verði það land í Evrópu sem eykur mest útblástur gróðurhúsalofttegunda? Er almenningsþörf á því að koma í veg fyrir að raforkan verði nýtt til umhverfisvænnar starfsemi, spilla rómuðum ferðamannastöðum og koma í veg fyrir tækifæri til nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi?

Það er það auðvitað ekki. Það er engin almenningsþörf á því að eyðileggja náttúruperluna Þjórsá í þágu erlendra einokunarálbræðslna á kostnað almennings og innlends atvinnureksturs sem í dag borgar allt að tífalt hærra raforkuverð en álbræðslurnar. Það er umhugsunarefni að fólk sem í sífellu þykist vera að verja eignarrétt fólks þegir nú þunnu hljóði þegar landeigendur við Þjórsá þurfa að þola linnulausan þrýsting um að fallast á afarkosti ellegar missa jarðir sínar. Ég vænti þess að mannréttindasinnar í öllum flokkum snúi bökum saman og komi í veg fyrir þessa skerðingu á einstaklingsfrelsi og grundvallarmannréttindum sem er í húfi.

Ég vil líka taka fram að það er fleira sem hamlar för Landsvirkjunar um þetta svæði. Einar Benediktsson, skáld og athafna- og virkjanadraumóramaður, fór í þann víking í upphafi síðustu aldar að kaupa upp vatnsréttindi á Íslandi. Hann vildi virkja Gullfoss. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu og það má þakka Sigríði í Brattholti. Jóhanna Jóhannsdóttir í Haga er kona sömu gerðar. Nú hefur ríkið afhent Landsvirkjun þessa Títan-samninga á silfurfati og ég segi að Landsvirkjun hafi ekki heimild samkvæmt þessum samningum til að reisa þau lón sem það hyggst gera.

Þegar Títan-félagið keypti vatnsréttindi í Þjórsá var í gildi og er reyndar enn í gildi grundvallarreglan um að vötn öll skuli renna sem að fornu hafi runnið. Títan-samningarnir heimila alls ekki þau áform Landsvirkjunar að byggja nefnd lón, að breyta straumvatni í stöðuvötn, að taka Þjórsá úr sambandi á löngum köflum, að breyta grunnvatnsstöðu á löndum við og í nágrenni Þjórsár, að stofna lífríki laxa og annarra fiska í og við ána í stórhættu og skapa stórfellda flóðahættu í Suðurlandsskjálftum, eða að eyðileggja fossa, flúðir og aðrar náttúruperlur og þar fram eftir götunum.

Landsvirkjun verður að sætta sig við að hún öðlast ekki frekari vatnsréttindi en Títan-félagið keypti á öðrum áratug 20. aldar og Títan-samningarnir heimila Landsvirkjun í besta falli að byggja rennslisvirkjanir. Og komi til þeirrar lögleysu að ríkið, sem einkaeigandi Landsvirkjunar, heimili fyrirtækinu að taka lönd eignarnámi er deginum ljósara að það verður að endurskoða Títan-samningana frá grunni og fara í eignarnám á því að byggja lónin, að breyta grunnvatnsstöðunni, að koma í veg fyrir laxagengdina o.s.frv.

Í þessu máli er einfalt fyrir Samfylkinguna, sem hefur tekið upp framsóknarstefnuna, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, og vísað ábyrgðinni yfir á sveitarfélögin, að segja Landsvirkjun að hætta við eignarnám og hætta við þessar virkjanir. Það getur ríkið í krafti eignarréttar síns fullkomlega.

Ég verð líka minna okkur á þá meginreglu sem gildir hér á landi að við erum með þetta land við Þjórsá og Ísland að láni frá afkomendum okkar og okkur ber að skila því í hendur þeirra í betra ástandi en við tókum við því. Áform Landsvirkjunar brjóta gegn þessari brýnu tilvistarreglu okkar.