135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:04]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rányrkja á sjó og landi er ámælisverð og fara þarf varlega í öllum efnum. Við hljótum þó alltaf þegar upp er staðið að taka tillit til þess og afstöðu út frá því að við verðum að taka af skarið. Við verðum að þora að taka af skarið til þess að tryggja að fólkið í landinu hafi lífsviðurværi. Það kemur ekkert af sjálfu sér, hefur aldrei komið á Íslandi og mun aldrei koma. Við munum alltaf þurfa að hafa fyrir því að lifa í þessu landi sem rætur okkar eru svo sterkar í.

Það er engin spurning að það sem hlýtur að ráða úrslitum, virðulegi forseti, er að við kunnum að þurfa að standa frammi fyrir því að þurfa að velja um það hvort við elskum meira landið okkar eða fólkið okkar. Þar tel ég að fólkið eigi að ráða og njóta vafans. Við værum ekki þjóð ef við hefðum ekki möguleika á því að hlúa að okkar fólki og gera því vel. Þetta er það sem málið snýst um þegar við ræðum um virkjanir á Íslandi, nýtingu auðlinda, farveg sem er tekinn formlega af þorra fólksins, aðilum sem hafa umboð þorra fólksins, og við hljótum að þurfa að virða það og taka tillit til þess þó að við séum ekki alltaf nákvæmlega sammála öllum útfærslum í þeim efnum. Ef við virðum það ekki er illa farið.