135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:17]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Í umræðu sem þessari er ekki hjá því komist að ræða nokkuð um grundvallaratriði sem lúta að því á hvaða forsendum menn ganga til leiks, á hvaða forsendum menn ganga til verkefna og hver þörfin er og hver möguleikinn er. Við Íslendingar hljótum eins og alla tíð að horfa til þeirra möguleika sem við búum við hvort sem þeir felast í því að virkja tunguna eða annað sem er fjöregg okkar í þessu landi.

Ég skil vel fólk sem er viðkvæmt fyrir náttúrunni. Ég er sjálfur þeirrar gerðar og að öllu jöfnu á náttúran að njóta vafans en þó … (AtlG: Að öllu jöfnu?) já, að öllu jöfnu, þó ef það ræður því að fólk geti lifað í landinu þá tel ég að það eigi fremur að njóta vafans. Þetta getur verið álitamál og útfærsluatriði en það er þetta sem skiptir máli. Þess vegna, að öllu jöfnu, með þessum fyrirvara, þá hljótum við að horfa fyrst til manneskjunnar í samfélaginu. Það er auðvelt að tala um þessa hluti eins og þeir séu eitthvað einfaldir en þeir eru ekkert einfaldir. Þeir eru margslungnir. Það er kannski smádæmi en gott dæmi um það sem hefur verið svolítið að þróast aftur á Íslandi á undanförnum árum, það er að virkja bæjarlækinn heima. Menn virkja ekki bæjarlækinn heima til að skapa meiri fegurð á bæjarstæðinu. Menn virkja bæjarlækinn heima til að geta lifað á þeirri jörð sem er þeirra fjárfesting, þeirra heimili og þeirra lífsmöguleiki. Sama á við þegar við fjöllum um fallvötn landsins, það hlýtur að vera sama sjónarmiðið en það er stærra í sniðum.

Það er auðvitað einkennilegt þegar talað er um að það eigi ekki að koma sveitarstjórnarmönnum í þá aðstöðu að þurfa að taka ákvörðun. Sveitarstjórnarmönnum eins og öðrum í stjórnkerfi landsins er ætlað að taka ákvörðun. Ekkert er einhlítt fyrir fram og það er allt umdeilanlegt sem um er rætt og þess vegna þurfa menn að taka ákvörðun. Það er munurinn á því að vera tilbúinn til að skila árangri, að taka ákvörðun. Auðvitað er sveitarstjórnarmönnum landsins treystandi til þess að afla sér þeirrar þekkingar út frá þeirri reynslu sem þeir hafa og þess umboðs sem þeir hafa til að taka ákvörðun. Að undanförnu hefur það ítrekað átt sér stað í sölum Alþingis að menn hafa talað niður til sveitarstjórnarmanna í þessum efnum af því að þeir eru ekki sammála þeim. Það er slæmt. Sveitarstjórnarmönnum er treystandi til að taka ákvörðun út frá sinni samvisku og sínu sjónarmiði og það verða menn einfaldlega að virða. Þar þýðir ekki að hafa neina hliðarbáru til að stökkva á og reyna að koma sér í aðra átt.

Það er allt breytingum undirorpið. Enginn getur hugsað sér að það sé skrúfað fyrir Þjórsá, það segir sig sjálft. En menn stoppa ekki svo glöggt Þjórsá, hún heldur áfram að renna. En það getur verið mjög viðkvæmt að horfa á allar breytingar í þeim efnum og það verða menn að skilja.

Á Kárahnjúkasvæðinu þar sem var mjög umdeilt hvar vatnið skyldi renna og festa sér sess var áður margt fyrir löngu fljót sem hefur verið kallað Jökla og rann í rauninni á nákvæmlega sama stað eins og síðar varð krafist að ekki mundi renna vatn, þannig að þetta er allt svolítið teygjanlegt þegar upp er staðið. Ég upplifði það sjálfur að búa á stað sem er viðkvæmur fyrir náttúrunni þar sem 240 milljónir rúmmetra af jarðefnum sköpuðu nýtt fjall, nýtt landsvæði sem var ekkert velkomið. Það skemmdi ákveðna ímynd, ákveðna sýn, ákveðna hugsjón og við því var ekkert að gera, þetta var af náttúrunnar völdum og við getum sagt að við eigum ekki að hleypa því fram af manna völdum að búa slíkt til. En við þurfum samt að kljúfa leiðina til framtíðar með því að taka skynsamlega á möguleikum okkar.

Högna Sigurðardóttir arkitekt, einn af kunnustu íslensku arkitektunum á erlendri grund, sem starfaði lengi í París hélt því fram að menn ættu ekki að hika við að sýna hreinar línur, ef kljúfa þyrfti kyrrð og festu náttúrunnar þá ætti að gera það áberandi. Í dag er línan kannski frekar sú að gera það mildilega og láta það falla að og það getur verið endalaust álitamál eins og hvað annað. En nú liggur sú stefna í landinu að það eigi að gera.

Eftir að gosinu í Vestmannaeyjum lauk, sem ég vitnaði til áðan, kom ég eitt sinn til Eyja með gamlan bónda úr Eyjum, Munda í Draumbæ. Hann hafði ekki verið í Eyjum í gosinu. Ég keyrði hann niður í bæ og þegar við komum að Landakirkju og við blasti Eldfellið og allt þetta nýja magn úr iðrum jarðar þá sá Mundi ekki fjall þar, það var ekki fyrir honum neitt fjall. Hann sagði: Það er mikil glás af koksi hérna. Hann sá möguleikana í hrauninu eins og koks til að hita upp og keyra katla á togurum og slíku þó að það hafi kannski ekki verið allsendis raunsætt. Ég held að það skipti miklu máli að tigna tölt og skeið í þessum efnum og freista þess að finna farsæla leið inn í framtíðina.