135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:25]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen er eins og kunnugt er mikill náttúruverndarsinni en jafnframt mikill framkvæmdamaður. Ég hefði þurft að sitja mun lengur að hv. þingmanni í spjalli um náttúruvernd og framkvæmdir en þessi stutti tími gefur tilefni til og ég mun eflaust gera það við tækifæri.

Aðalatriðið í þessu máli er það að þær framkvæmdir sem við vinnum á landinu lúti þeim reglum að við vinnum ekki óafturkræf spjöll, að við tínum ekki svo eggin í Suðurey að það verði ekki hægt að tína þau fyrir afkomendur, að við spillum ekki veiði þannig að börnin okkar og barnabörnin komist ekki að.

Og hv. þm. Árna Johnsen gerist tíðrætt um fólkið í landinu. Það skil ég mætavel og þar talar hv. þingmaður frá hjartanu. En fólkið í landinu er ekki bara núlifandi fólk heldur líka afkomendur okkar sem við erum með landið að láni frá. Við erum með landið að láni frá afkomendum okkar og eigum að skila því í betra ástandi. Svo spyr maður um fólkið í landinu, líka þá núlifandi og maður spyr sig um íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps og maður spyr sig um íbúa Flóahrepps og maður spyr sig um sveitarstjórnir í þessum hreppum. Hvers eru þau öllsömul að njóta af þessum framkvæmdum? Einskis. En þau eru fórnarlömb þeirra. Þau eru fórnarlömb framkvæmdanna vegna þess að með þessum ákvörðunum hefur verið sköpuð þar úlfúð, tvær fylkingar, stríðandi fylkingar. Ég bið hv. þm. Árna Johnsen að setja það í samhengi til Vestmannaeyja, til að mynda. En þetta gefur ekkert inn í þessi sveitarfélög ef menn vilja tala um debet og kredit, engar tekjur. (Forseti hringir.) Það er verið að flytja verðmætasköpunina til útlanda, orkuna úr þessum fallvötnum til útlanda.