135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:28]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Atla Gíslasyni varðandi það að við eigum að fara varlega, við eigum að ganga hægt um gleðinnar dyr. En við þurfum að taka af skarið og réttir aðilar á hverjum stað verða að ráða ferð í því. Mér finnst það hins vegar svolítið þröngt sjónarmið þegar farið er að deila niður að þessi byggð eigi að fá þetta út frá einhverjum forsendum, að Hrísey eigi að fá stærri hlut af því að þar er hátt hlutfall af fiski eða einhver annar staður á landinu. Við erum ein þjóð í einu landi og það hlýtur að vera meginstefnan að það nýtist heildinni.

Ég hef varað við því að við förum ekki of geyst í þeim takti sem er í þjóðfélaginu í dag sem er á margan hátt ofspenntur, á margan hátt þannig að stundum dettur manni í hug að við séum orðin of fordekruð og krefjumst alltaf meira og meira án þess að gæta þess að það eru aðrir valkostir. Engu að síður erum við jafnt og þétt að reyna að tryggja stöðu samfélagsins og það er ekki sama hvar á er litið í þeim efnum, hvort það er Jón eða séra Jón. Ég hef til að mynda ekki heyrt einn einasta þingmann í sölum Alþingis gagnrýna víraflækjurnar, leiðslurnar og umhverfið sem hefur umbreyst ótrúlega á leiðinni austur yfir fjall, við Svínahraun, Kristnitökuhraun, á Hellisheiði. Þar þegja menn þunnu hljóði. Skyldi það vera vegna þess að það er of mikið af hagsmunum höfuðborgarsvæðisins?