135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:32]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan teygir sig út í það að þetta er flóknara en hægt er að segja og fjalla um í stuttu máli. Ég vek athygli á því að ég er ekki að predika að það eigi að stoppa hluti, heldur vinna þá skynsamlega. Ein af góðu tillögunum sem hafa verið samþykktar á vettvangi stjórnmálanna var til að mynda á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar það var stefnumarkað og samþykkt að línur skyldu fara í jörð eða stokka eins og kostur væri. Það er kannski nokkurra áratuga verkefni en það er mjög brýnt verkefni inn í stefnu okkar í orkumálum landsins.

Auðvitað er hvert mál sérstakt, hver byggð er sérstök og býr við sérstakar aðstæður. Til þess þarf að taka tillit þó að auðvitað megi til sanns vegar færa að það séu tvær þjóðir í þessu landi eins og hv. þm. Atli Gíslason vék að. Dæmin sýna það og sanna en markmið okkar hlýtur þó að eiga að vera eitt, að við séum ein þjóð í einu landi. Það er það sem ég lagði áherslu á. Það hlýtur að vera grunnsjónarmiðið þegar við fjöllum um nýtingu auðlinda okkar að við stöndum jafnfætis í þeim efnum, hvort sem það er að stunda nám í landinu, fara í háskóla eða annað.

Gott dæmi um tilvitnun hv. þingmanns varðandi mismununina er það að landsbyggðin borgar 85% af veiðileyfagjaldi, henni er ætlað að borga 1.100 millj. á næsta ári. Ef Orkuveita Reykjavíkur borgaði samsvarandi auðlindagjald ætti hún að borga 810 millj. (Forseti hringir.) Hún borgar ekki neitt.