135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:35]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem orðið hefur um þessa þingsályktunartillögu um Þjórsárver og neðri hluta Þjórsár. Ég tel að hún hafi verið frjó og hún gefur manni tilefni til að ætla að full þörf sé á að ræða ákveðna þætti þessa máls ofan í kjölinn hér á Alþingi Íslendinga. Ég sakna enn viðveru ráðherra í þingsal og ég sakna samfylkingarþingmanna í þingsal. Ég sakna þess að hér séu einhverjir fulltrúar fyrir hið Fagra Ísland (ÁJ: Góðir þingmenn hérna.) sem Samfylkingin talaði fyrir í kosningabaráttunni. En ég þakka fyrir þá þingmenn sem komu og tóku þátt.

Mig langar aðeins til að bregðast við nokkrum atriðum sem hv. þm. Árni Johnsen lagði til umræðunnar áðan og þeir áttu orðastað um, hann og hv. þm. Atli Gíslason. Það er varðandi það hvort sveitarstjórnarmönnum sé treystandi, og hv. þm. Ólöf Nordal var einnig á því. Ég er algerlega sannfærð um að sveitarstjórnarmönnum er treystandi fyrir öllum þeim ákvörðunum sem varða samfélag þeirra svo að það sé algerlega á hreinu. Hins vegar varða stóriðjuframkvæmdir iðulega ekki bara nærsamfélag heldur kannski mörg sveitarfélög. Hv. þm. Árni Johnsen kom inn á línulagnirnar sem eru einmitt dæmi um það að svona framkvæmd eins og fyrirhuguð er í neðri hluta Þjórsár varðar ekki bara fólkið í hreppsnefndum í Flóahreppi eða Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þess vegna þarf að taka þessar stóru ákvarðanir annars staðar en á vettvangi lítilla sveitarstjórna. Þær varða miklu fleiri. Þær eru ekki bara spurning um að virkja bæjarlækinn, þær eru spurning um áhrif á risastórt samfélag, þær varða okkur öll eins og hv. þm. Árni Johnsen sagði í ræðu sinni.

Þess vegna verðum við að átta okkur á því að sumar ákvarðanir eru þess eðlis að það er ekki hægt að taka þær á vettvangi sveitarstjórna. Þetta sögðu sveitarstjórnarmenn okkur þingmönnum í nefndastarfi þegar lögunum um mat á umhverfisáhrifum var síðast breytt. Þá var vald fært yfir á herðar þessara sveitarstjórnarmanna, þeir báðu ekki um að fá það til sín og kveinkuðu sér undan því að þurfa að taka við því. Samband sveitarfélaga spurði hvort þetta væri — og setti stórt spurningarmerki við það — góð breyting. Mikill kostnaður var samfara því og félli þá á sveitarfélögin, við það gerði Samband sveitarfélaga athugasemd þannig að sú breyting sem gerð var var ekki í sátt við sveitarstjórnarmenn.

Varðandi síðan línulagnirnar yfir Hellisheiði hef ég vikið að því, bæði í ræðu og riti, að það er til skammar hvernig þær hafa verið lagðar, að ekki skuli hafa verið reynt að sameina eitthvað af þessum flækjum, að alltaf skuli vera reist bara ný möstur og brotið nýtt land undir þau og nýjar línur. Hver veit nema það verði á endanum, ef af virkjunarframkvæmdum í neðri hluta Þjórsár verður, að enn eitt línuparið komi til viðbótar yfir Hellisheiðina. Það kann að enda með því og þá er þetta ekki bara einhver ákvörðun sem sveitarstjórn í Flóahreppi á að taka, eða sveitarstjórn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Það hlýtur að liggja í augum uppi.

Ákvarðanir af þessu tagi varða okkur öll og þær eiga að byggjast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Við höfum undirgengist þá hugmyndafræði, hún gengur út á að það eru þrjár stoðir undir öllum svona ákvörðunum. Þessar þrjár stoðir eru í fyrsta lagi ein efnahagsleg, í öðru lagi umhverfisleg og í þriðja lagi samfélagsleg. Reglan um sjálfbæru þróunina er eins og kollurinn í fjósinu, hver einasta löpp — það eru þrjár lappir undir kollinum og engin ein má vera lengri eða styttri en önnur því að þá sporðreisist kollurinn — verður að vera jafnlöng hinum, stoðirnar í sjálfbæru þróuninni þurfa allar að vera jafnlangar og þær eru allar jafnmikilvægar. Þess vegna megum við heldur ekki láta hinn efnahagslega þátt ráða því hvaða ákvarðanir eru teknar. Hinn umhverfislegi er jafnrétthár og líka hinn félagslegi sem varðar áhrifin á samfélagið. Þetta segir okkur að ákvarðanir af þessu tagi þurfa gríðarlega mikla yfirvegun, mikla umhugsun og mikla vinnu. Við megum ekki telja eftir okkur að fara í þá vinnu.

Mér fannst gaman að líkingunni sem hv. þm. Árni Johnsen tók varðandi fjallið sem var ekki velkomið í Vestmannaeyjum. Ég ímynda mér samt að það hefði verið auðveldara fyrir Vestmannaeyinga að sætta sig við óvelkomið fjall sem væri komið af náttúrulegum völdum fyrir tilstilli eldgoss en ef einhver mannlegur máttur hefði komið og sturtað yfir Vestmannaeyinga öllum þessum rúmmetrum af jarðefnum. Ég er ekki tilbúin til að sætta mig við það að Vestmannaeyingar hefðu tekið því með þegjandi þögninni. Þá tel ég að fjallinu hefði verið mokað burt. Ef Vestmannaeyingar hefðu haft val um það hvort fjallið kæmi eða kæmi ekki hefðu Vestmannaeyingar ekki valið fjallið.

Við verðum að átta okkur á því að hinn mannlegi þáttur í þessari umræðu er sá sem skiptir sköpum. Það þarf að taka skynsamlega á öllum okkar möguleikum, ég er sammála hv. þm. Árna Johnsen um það, en hver segir að stóriðjustefnan sé möguleiki allra möguleika? Andri Snær Magnason skrifaði bókina Draumalandið og hann velti einmitt upp spurningunni: Af hverju er stóriðjustefnan tekin fram yfir alla aðra möguleika? Það eru svo gríðarlega margir aðrir möguleikar. Af hverju varð stóriðjustefnan fyrir valinu sem möguleiki allra möguleika?

Þessari spurningu hefur ekki verið svarað og verður ekkert svarað hér. Við höfum mótmælt þessari stefnu í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við teljum stóriðjustefnuna ekki vera möguleika allra möguleika.

Nú langar mig til að fá að vitna í orð Þorsteins Gylfasonar heitins frá árinu 1993. Yfirskriftin yfir þessu skrifi hans er Að gera og vera eða Skyldu stjórnmál hljóta að vera siðlaus?

Þorsteinn Gylfason spurði, með leyfi forseta:

„Ef við viljum setja varnarleikjum nytjastefnumanna einhver mörk“ — og ég set samasemmerki milli nytjastefnumanna og stóriðjusinnanna — „hljótum við að æskja þess að nógu margir geri nógu mikið af því að fylgja samvisku sinni og sannfæringu, skeyta í engu um afleiðingarnar og segja ósköp einfaldlega: Hér stend ég og get ekki annað. Samfélag eintómra nytjastefnumanna, eintómra stjórnmálamanna, er siðlaust samfélag. Eina vonin um siðferði samfélagsins er sú að meðal þegna þess séu margir menn sem ekki eru stjórnmálamenn.“

Þarna vildi Þorsteinn Gylfason meina að það væri samasemmerki á milli nytjastefnumanna og stjórnmálamanna. Ég tel okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði afsanna þá kenningu því að við segjum nytjastefnunni sem fólgin er í stóriðjustefnunni stríð á hendur. Við teljum stóriðjustefnuna ekki vera möguleika allra möguleika.

Að lokum, hæstv. forseti, þakka ég þá umræðu sem hér hefur orðið um þessa tillögu um að friðland í Þjórsárverum verði stækkað og sett á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og að hætt verði við virkjanaáform í neðri hluta Þjórsár. Mig langar í þessu sambandi í lokaorðum mínum að minna á tillögu Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun fyrir árin 2003–2008. Hún var gefin út árið 2003 og þar var lagt til að friðlandið í Þjórsárverum yrði stækkað á þrjá vegu, mest til suðurs eða í Sultartangalón eins og gert er ráð fyrir að verði gert samkvæmt þessari tillögu. Umhverfisstofnun segir að forsenda stækkunar friðlandsins sé landslagsheild hins víðáttumikla votlendis og rústasvæðis ásamt fjölbreyttum búsvæðagerðum, enn fremur að svæðið hafi að geyma fágætar náttúruminjar sem hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi og að á herðum okkar hvíli alþjóðleg ábyrgð. Þar að auki sé verndargildi svæðisins mikið út frá vísindalegum, félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum sjónarmiðum.

Þetta hefur verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma tekið undir, hún hefur komist að sömu niðurstöðu og Umhverfisstofnun.

Það er mat okkar þingmanna sem flytjum þessa tillögu að það sé löngu tímabært að skapa frið um Þjórsá frá upptökum til ósa og að í því augnamiði beri að hætta við þessi virkjanaáform og veituframkvæmdir í Þjórsárverum og sömuleiðis í neðri hluta Þjórsár. Til að tryggja Þjórsárverum þann sess sem þau verðskulda sem alþjóðlega mikilvægt náttúruverndarsvæði ber að okkar mati að tilnefna þau á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og jafnframt ber að stefna að því að Þjórsárver verði á endanum hluti af Hofsjökulsþjóðgarði sem næði yfir verin ásamt Kerlingarfjöllum, friðlandinu í Guðlaugstungum og rústasvæðinu norðan Hofsjökuls. Í ljósi þess hversu óljós stefnuyfirlýsing Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er um málefni Þjórsárvera, virðulegi forseti, er nauðsynlegt að Alþingi tali skýrt og greinilega í þessum efnum. Á þann hátt einan er tryggt að horfið verði endanlega frá Norðlingaölduveitu, leyfið til hennar afturkallað og verndun Þjórsárvera tryggð til framtíðar.