135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

meðferð opinberra mála.

41. mál
[18:45]
Hlusta

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum. Flutningsmenn að þessu máli eru ásamt mér hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal.

Þetta mál er tiltölulega einfalt. Það lýtur að því að tryggja framgang bótakröfu í refsimálum en þannig er að fjölmörgum málum sem eru í refsivörslukerfinu, þ.e. sem ákært hefur verið í, fylgir bótakrafa frá þolandanum í viðkomandi ákærumáli. Réttarfarslögin gera ráð fyrir því að hægt sé að koma að bótakröfu undir rekstri opinbers máls en eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er að mati flutningsmanna of algengt að slíkri bótakröfu sé vísað frá á þeirri forsendu að meðferð hennar valdi óhagræði í málinu. Samkvæmt gildandi lögum er sú heimild vissulega til staðar fyrir dómara að vísa bótakröfunni frá í málinu, halda áfram með refsiþátt þess og ljúka því þá ýmist með því að dæma til sektar eða sakleysis í því máli. Þegar svo háttar til stendur sá sem bótakröfuna hefur haft uppi frammi fyrir því að þurfa að hefja málarekstur sinn að nýju. Vissulega má færa fyrir því rök að undirbúningur hans að bótakröfu í refsimálinu kunni með einhverjum hætti að nýtast í nýju máli en með þessu frumvarpi er hugmyndin að setja dómurum aðeins þrengri skilyrði fyrir því að fella mál í þennan farveg. Eins og ég gat um áður þykir flutningsmönnum einfaldlega of algengt að bótakröfu sé vísað frá og ég vil leyfa mér að segja að það sé einfaldlega of nærtækt og jafnvel þægilegt úrræði fyrir dómara til einföldunar á málinu að vísa bótaþættinum frá. Þess vegna er hér lagt til að andmæli ákærði bótakröfu og telji dómari að úrlausn um hana geti dregið mál á langinn geti hann áfram vísað kröfunni frá dómi — en með úrskurði. Það er sem sagt nýtt.

Jafnframt er tillaga samkvæmt frumvarpinu að dómari geti látið við það sitja að vísa kröfunni frá dómi að því er fjárhæð hennar varðar.

Ég tel þetta í sjálfu sér tiltölulega einfalt mál en í grundvallaratriðum hnykkir það aðeins á því að það þurfi að liggja fyrir að úrlausn bótakröfunnar muni draga mál að mun á langinn — sem sagt áherslumunur á því þegar borið er saman við lögin eins og þau standa í dag — og svo er hitt atriðið mikilvægt líka að það þarf að kveða upp úrskurð til að koma bótakröfu frá í þessum málum sem hefur þá þýðingu að slíkan úrskurð má fá endurskoðaðan á hærra dómstigi.

Í greinargerð með frumvarpinu er rakið hvaða hagræði geti verið að því fyrir málsaðila að fá niðurstöðu í bótamálið. Í þessu máli er auðvitað verið að vísa sérstaklega til fenginnar reynslu af meðferð þessara bótamála. Ég hyggst ekki fara í neinum smáatriðum yfir greinargerðina með málinu heldur koma inn á það helsta sem mér finnst skipta máli. Ég vil ekki gera lítið úr því að það geti verið mikilvægt sjónarmið fyrir dómskerfið að geta komið bótakröfu frá þegar hún er augljóslega að þvælast fyrir undir rekstri máls, en þó verður að veita því úrræði dómaranna eitthvert frekara aðhald en gert er samkvæmt gildandi rétti.

Ég vil láta þess getið að þetta mál lá fyrir á síðasta þingi og fékk þá ekki að koma hingað til 2. umr., var ekki einu sinni tekið til 1. umr. ef ég man rétt, komst ekki á dagskrá. Í millitíðinni, þ.e. frá því að það var fyrst lagt fram og þar til ég mæli nú fyrir því, hefur dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um meðferð sakamála og eru í því máli lagðar til nokkrar breytingar á núgildandi lögum. Ég fagna þeim breytingum sem þar hafa verið kynntar fyrir þinginu. Þær eru í ákveðnum atriðum svipaðs eðlis og fjallað er um í þessu frumvarpi. Samkvæmt frumvarpi til laga um meðferð sakamála sem liggur fyrir þinginu er í 175. gr. gert ráð fyrir því að dómari geti við þær aðstæður þegar hann telur að meðferð bótakröfunnar geti leitt til teljandi tafa eða óhagræðis við rekstur máls kveðið upp úrskurð líkt og gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar um að skilja bótakröfuna frá öðrum þáttum málsins og víkja henni til meðferðar fyrir dómi í sérstöku einkamáli. Samkvæmt frumvarpi dómsmálaráðherra mundi þá við þær aðstæður hefjast sérstakt einkamál.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að sú leið yrði farin, færi fram á það við allsherjarnefnd sem væntanlega fær þetta frumvarp til skoðunar að þeir kostir yrðu báðir skoðaðir og lagt mat á það hvaða leið yrði heppilegast að fara hér en með því að þessi breytingartillaga við núgildandi rétt kom frá dómsmálaráðherra tel ég að a.m.k. sé verið að taka á þessu vandamáli og með því verið að tryggja þeim sem eru þolendur í málum sem síðan verða að refsimálum fyrir dómstólunum tryggari rétt til að koma bótakröfum sínum að.

Með þeirri aðferð sem lagt er til að farin verði í frumvarpi dómsmálaráðherra er tryggt að tími sparast, það þarf ekki að hefja mál að nýju. Það er sem sagt gengið út frá því að í fyrsta þinghaldi í einkamálinu sem hefst eftir úrskurð dómara muni ákærði þurfa að leggja fram greinargerð hafi hann ekki gert það þá þegar í sakamálinu. Þetta er sem sagt viðleitni í rétta átt að mínu áliti og ég tek því fagnandi að þetta nýja frumvarp dómsmálaráðherra skuli taka til umfjöllunar hið sama atriði og ég ræði í þessu frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála.

Ég hygg að ég hafi komið að þeim helstu rökum sem er til að dreifa fyrir þessu þingmáli en vísa að öðru leyti til greinargerðar með málinu.