135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

meðferð opinberra mála.

41. mál
[18:55]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem hér kemur fram og þær hugleiðingar sem hv. þingmaður hafði fram að færa til rökstuðnings. Það er öllum kunnugt að bótakrafa í sakamáli hefur skapað erfiðleika en mér hefur löngum fundist ósanngjarnt að vísa henni allri burtu ef hún veldur töfum á sjálfu málinu. Ég hef getað séð það algerlega fyrir mér að dæmt yrði um skaðabótaskyldu eða ef einkaréttarleg krafa flækir sakamálið að vísa því á annan „instance“ innan sama dómstóls í einkamálameðferð eða hvernig sem það er hægt. Mér finnst sjálfum ótækt að máli út af bótakröfu sé hent út og að brotaþolinn standi frammi fyrir því að höfða síðan nýtt einkamál, færa fram sönnur, bótafjárhæðir og þar fram eftir götunum, sérstaklega í ljósi þess að í miklum meiri hluta, ég veit ekki hve miklum, en í miklum fjölda þessara mála eru ákærðu eignalausir og tilgangslítið að leggja í þann kostnað að fara í málaferli við viðkomandi svo að ég haldi því til haga. Fjöldamörg líkamsárásarmál eiga í hlut, því miður oftast ungmenni, fólk undir þrítugu, og mjög oft, ef ekki bara oftast, eignalaust og allslaust og tilgangslaust að eiga við þetta. Brotaþolinn á hins vegar rétt á því að fá úrlausn dómstóls án þess að þurfa að fara í tvígang með málið fyrir dómstóla. Það er eðlilegt að huga að þessum réttindum þannig að ég fagna þessu frumvarpi og þeirri hugsun sem í því felst. Ég mun sem fulltrúi í allsherjarnefnd vinna að framgangi þess og teldi þá best að málið kæmi inn í meðferð frumvarpsins um sakamál eins og hv. þingmaður benti á og ég mun beita mér fyrir því.

Þetta kann líka að vera skilyrði fyrir því sem er mikilvægara og það er að fá dóminn til að nálgast bætur frá ríkissjóði fyrir brotaþola og auðvelda þá leið. Við erum sammála um það, held ég, að þegar ákærði er eignalaus og allslaus eigi samfélagið að koma brotaþolanum til aðstoðar. Mér hefur þó fundist miður og vil halda því til haga að bætur til brotaþola hafa staðið í stað frá árinu 1995 og þannig skerst verulega, allt að 70–80%. Ég hefði kosið að lögum þar að lútandi yrði breytt þannig að fjárhæðir yrðu færðar til verðlags. Ég ítreka þó að ég mun styðja þetta mál innan allsherjarnefndar. Mér finnst hugsunin í því góð. Ég velti fyrir mér orðalaginu á frumvarpsgreininni, ég skil það fullkomlega en velti því fyrir mér hvort þar megi gera einhverjar úrbætur.