135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:36]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu sem snýr að máli sem, eins og hann sagði sjálfur, hefur verið talsvert í umræðu og var rætt hér fyrir skömmu síðan í utandagskrárumræðu eins og flestum er nú kunnugt.

Svo ég víki að þeim spurningum sem hv. þingmaður leggur fyrir mig þá er svarið þetta: Samkvæmt lögbýlaskrám landbúnaðarráðuneytisins hefur lögbýlum fjölgað um tæpt 1% á árunum 2000–2006 eða úr 6.433 í 6.493 jarðir. Á sama tíma hefur eigendum lögbýla fjölgað úr 8.999 í 10.095 eða um rúmlega 12% sem bendir til almennt dreifðara eignarhalds á lögbýlum. Hér eru talin öll lögbýli hvort sem þau eru í ábúð eða í eyði. Eigendum að fjórum og fleiri lögbýlum hefur fjölgað úr 26 í 51 á þessum árum séu sveitarfélög og ríkið undanskilið og varð mesta breytingin á árinu 2002 eða frá 27 eigendum í 41. Ég vek athygli á því í þessu sambandi að jarðalögin sem mjög oft hafa verið nefnd í samhengi við þessa þróun tóku ekki gildi fyrr en árið 2004 eða eftir að þessi þróun varð örust eins og ég vék hér að.

Það ber að hafa í huga að sami aðili getur átt hlut í einni eða fleiri jörðum, ekki endilega alla jörðina og einnig að hjón teljast sem tveir eigendur séu þau bæði skráð fyrir jörðum sínum. Í árslok í fyrra, 2006, var 51 aðili skráður eigandi að fleirum en þremur lögbýlum í lögbýlaskrá og þeir skiptust þannig að 49 aðilar eiga í fjórum til sex lögbýlum, einn á í níu lögbýlum og einn á í 33 lögbýlum. Núgildandi jarðalög sem voru sett árið 2004 juku frjálsræði við meðferð og ráðstöfun jarða. Undanfarin missiri hafa verið umræður í þjóðfélaginu um að samþjöppun hafi orðið í eignarhaldi jarða í kjölfar þess. Þess vegna hafa Bændasamtök Íslands í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið unnið að úttekt á eignarhaldi lögbýla og þróun þess og liggur þessi skýrsla fyrir og var raunar kynnt opinberlega í síðustu viku.

Ljóst er að mestar búháttabreytingar urðu á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar þegar framleiðslutakmarkanir voru teknar upp í mjólkur- og kindakjötsframleiðslu og útflutningsbæturnar voru afnumdar. Á síðasta áratug dróst framleiðsla verulega saman, ríkisútgjöld lækkuðu umtalsvert og lögbýlum sem voru nýtt til landbúnaðar fækkaði. Hagræðingarkrafa í landbúnaði hefur aukist á sama tíma og tækniframfarir hafa verið nýttar svo nú er hlutfallslega meiri framleiðsla á færri búum. Á sama tíma og þessi þróun hefur verið í landbúnaði hefur verið uppgangur í efnahagslífi landsins og eftirspurn eftir landi aukist jafnt og þétt sem hefur leitt til hærra jarðarverðs og ég er sammála hv. þingmanni um að það sé auðvitað jákvæð þróun séð út frá sjónarhóli bænda og dreifbýlisins. Mun fleiri hafa sóst eftir landi til búsetu og frístundanota og eigendum lands hefur fjölgað verulega og fjölbreytni í atvinnulífi aukist með aukinni tækni og betri samgöngum. Núgildandi jarðalög virðast ekki hafa haft nein merkjanleg áhrif á þessa þróun eins og ég vék að áðan.

Á heildina litið hefur verið uppgangur í sveitum landsins síðustu ár og aukin eftirspurn jarðnæðis þess vegna hleypt nýju lífi í sveitirnar. Hugsanlega væri hægt að auka það enn frekar með heimild til tvöfaldrar búsetu. Það er ekki hægt að útiloka að rétt sé að hafa aukin afskipti af eignarhaldi jarða eða landnotkun til að tryggja nægt land til matvælaframleiðslu vegna sjálfbærni þjóðarinnar og matvælaöryggis. Þó er alveg ljóst að slíkar hömlur þyrftu að vera mjög vel ígrundaðar til að þær stöðvi ekki þann uppgang sem hefur verið og verðfelli ekki eigur bænda og möguleika þeirra í framtíðinni enda er eignarhaldið almennt dreifðara þótt einstaka aðilar hafi keypt fleiri jarðir. Þróunin verður samt sem áður örugglega sú að matvælaframleiðslan færist fjær helstu þéttbýliskjörnum og í dreifðari byggðir eins og víðast hefur verið og það er í sjálfu sér ekki neikvætt. Ég hef áður vakið athygli á því að á Alþingi voru fluttar tillögur sem höfðu það að markmiði að reyna að stuðla að því að þessi framleiðsla færðist fjær þéttbýlinu og styddi þess vegna betur við atvinnusköpun í dreifbýli þar sem það er fjærst þéttbýlinu og stuðli þar með að öflugra viðnámi í sveitunum.

Það er auðvitað þannig eins og ég hef áður sagt að það vill enginn sjá jarðir landsins í eigu örfárra aðila og það er í sjálfu sér ekki hægt á þeim tölum sem við höfum að merkja þá þróun almennt talað. Það er þó sjálfsagt og það er svar við fyrirspurn hv. þingmanns meðal annars að fylgjast með þróuninni og marka stefnu til lengri tíma litið með tilliti til sóknarfæra í landbúnaði, sjálfbærni hans, gæða, matvælaöryggis þjóðarinnar og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við tökumst á hendur.

Af því að hv. þingmaður spurði mig aukalega þá vil ég segja það að við erum að fylgjast með þessu máli í samvinnu við Bændasamtökin og sérstaklega hefur verið hugað að því í samvinnu við Landssamtök veiðifélaga og Bændasamtökin að huga að þeirri þróun sem snýr einkum að hlunnindajörðunum meðal annars með tilliti til stöðu veiðifélaga og stöðu veiðiréttarhafa.