135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:49]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Þegar slíkra spurninga er spurt velti ég því fyrir mér hver ætlunin er og hvað menn vilja. Vilja menn setja einhverjar sérstakar hömlur á markaðsþjóðfélagið og markaðsstarfsemina? Hér áðan var spurt hvort koma ætti á búsetuskyldu. Spurningin er þá hve langt menn ætla að ganga í því efni? Ætla menn að taka upp vistarband eins og einu sinni var tíðkað? Eða vilja menn að markaðsþjóðfélagið starfi með eðlilegum hætti?

Ég verð að taka undir það sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði hér áðan. Ég tel mjög mikilvægt að þeir sem erja jörðina í sveita síns andlits fái eðlilegan afrakstur og verðmæti fyrir ævistarfið, þeir hafa kostað miklu til og unnið að því allt sitt líf að byggja jarðirnar upp. Það er ekki vá þegar jarðnæði hækkar í verði. Það er kostur fyrir þá (Forseti hringir.) sem eru á landsbyggðinni.