135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

179. mál
[13:57]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru nú tíu spurningar þannig að ég verð að setja í einhvers konar fluggír til þess að reyna að klára þetta á þeim skamma tíma sem ég hef hér fyrir höndum.

Heildarafli Færeyinga á Íslandsmiðum var tæp 55 þús. tonn árið 2006, tæp 59 þús. tonn árið 2005. Það sem af er þessu ári, 2007, er heildaraflinn rétt liðlega 56 þús. tonn. Ég vil vekja athygli á því að samningar okkar við Færeyjar eru gerðir á almanaksári en ekki fiskveiðiári.

Í magni talið veiða Færeyingar mest af loðnu í íslenskri lögsögu, þar næst síld, kolmunna, þorsk, löngu, ýsu og svo minna af öðrum tegundum.

Færeysk skip veiða botnfisk á handfæri og línu en uppsjávarafli þeirra er veiddur í nót og flottroll.

Landhelgisgæsla Íslands hefur eftirlit með ferðum og athöfnum færeyskra skipa í íslenskri lögsögu. Í fyrsta lagi er um að ræða eftirlit frá varðskipum, þar sem m.a. er farið um borð í skipin til eftirlits þar sem afli og veiðarfæri eru skoðuð og afli borinn saman við uppgefinn afla skipa. Í öðru lagi er um að ræða eftirlit úr lofti en þá eru staðsetningar og athafnir skipanna skráðar og sendar til varðskipa og stjórnstöðva. Í þriðja lagi er um að ræða tilraunir sem hafa verið gerðar til eftirlits með radar og gervihnöttum, m.a. á Færeyjahrygg.

Hjá Landhelgisgæslunni eru upplýsingar um veiðiheimildir, síðustu aflatilkynningar og staðsetningar ávallt fyrirliggjandi. Færeysk skip eru í fjareftirliti samkvæmt samningi þar um milli Íslands og Færeyja. Kerfið sendir með sjálfvirkum hætti „entry“-skeyti þegar skip er komið inn í íslenska lögsögu og kemur það um leið fram í fjarskipaeftirliti Landhelgisgæslunnar.

Upplýsingar um staðsetningu skipa berast á tveggja stunda fresti með sjálfvirkum hætti á meðan skipið er innan íslenskrar lögsögu. Þegar skip yfirgefur svo lögsöguna berst „exit“-skeyti og staðsetningarskeyti hætta þá jafnframt að berast. Jafnframt senda færeysk skip daglega aflaskeyti auk tilkynninga um komu inn í lögsöguna sem og um brottför úr lögsögunni. Þessar upplýsingar eru skráðar í gagnagrunn Landhelgisgæslunnar og úr grunninum er síðan unnið yfirlit um sundurliðun á afla. Upplýsingarnar eru síðan notaðar til samanburðar þegar farið er um borð í skipin til eftirlits.

Í kerfinu liggja jafnframt fyrir upplýsingar um hvaða skip hafa veiðileyfi og er þannig fylgst með því að einungis skip með slík leyfi séu að veiðum í lögsögunni. Í þeim tilfellum þegar varðskipsmenn fara um borð í skipin eru allar skoðanir þeirra skráðar og sendar í gagnagrunn þar sem gerður er samanburður við fyrirliggjandi upplýsingar sem áður hafa borist.

Samkvæmt 10. gr. laga, nr. 79 frá 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum, getur, með leyfi forseta: „Hafrannsóknastofnunin bannað tilteknar veiðar á ákveðnum svæðum í allt að 14 sólarhringa með tilkynningu til strandstöðva og í útvarpi. Jafnframt skal veiðieftirliti Fiskistofu og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynnt um skyndilokanir.“

Skyndilokun er bann við veiðum á afmörkuðu svæði með tilteknu veiðarfæri eða veiðarfærum vegna skaðlegra veiða, t.d. of hás hlutfalls smáfisks í afla. Skyndilokunum er ekki beitt gegn einstökum skipum eða útgerðum og þar af leiðandi eru þær ekki skráðar með þeim upplýsingum. Samkvæmt reglugerð nr. 151 frá 2001, um botnfiskveiðar færeyskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi, skulu færeysk skip hlíta sömu reglum og íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibann, friðunarsvæði og aðra lokun svæða. Á árunum 2005–2007 tóku engar skyndilokanir gildi, sem byggðust á mælingum á afla veiddum af færeyskum skipum.

Á árinu 2005 var farið 14 sinnum um borð í færeysk fiskiskip frá varðskipum Landhelgisgæslunnar til skoðunar á afla og veiðarfærum. Árið 2006 var farið 27 sinnum um borð í færeysk fiskiskip frá varðskipum Landhelgisgæslunnar til skoðunar á afla og veiðarfærum. Alls hefur verið farið 13 sinnum um borð í færeysk fiskiskip frá varðskipum Landhelgisgæslunnar á þessu ári til skoðunar á afla og veiðarfærum. Tvö tilvik hafa komið upp, þar sem gerðar voru athugasemdir. Í báðum tilvikum var það vegna meintra ólöglegra veiða á bannsvæðum. Ekki hefur komið til leyfissviptinga.

Mestu af afla færeyskra skipa, sem var veiddur innan íslenskrar landhelgi, er landað annars staðar en hér á landi. Fiskistofa hefur ekki fylgst sérstaklega með löndun færeyskra skipa, en fær hins vegar gögn frá Færeyjum um landanir færeyskra skipa á afla úr íslenskri lögsögu og ber þær upplýsingar saman við afla samkvæmt tilkynningum Landhelgisgæslunnar. Færeysk yfirvöld sjá hins vegar um löndunareftirlitið í Færeyjum og bera ábyrgð á því sem og að tilkynna um afla til íslenskra stjórnvalda.