135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

179. mál
[14:03]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir að vekja athygli á þessum málum. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að dást að því hvernig hæstv. ráðherra fór að því að svara öllum þessum spurningum því að hér er um tíu spurningar að ræða sem hæstv. ráðherra hefur einungis fimm mínútur til að svara. Mér finnst vert, hæstv. forseti, að við reynum að fækka spurningunum þannig að ráðherra hafi tóm til að svara jafnviðamiklum spurningum og hér eru lagðar fram, því að þegar um svo mikilvægt mál er að ræða finnst mér ófært með öllu að leggja fram tíu spurningar í fyrirspurn þannig að ráðherra hafi innan við 30 sekúndur til að svara hverri og einni. Það getur ekki verið umræðunni til góðs og ég held að við ættum að læra af þessu að stilla spurningum í hóf, a.m.k. skipta þeim þannig upp að við fáum greinarbetri svör.

Hæstv. ráðherra á heiður skilið fyrir að hafa farið á hundavaði yfir allan þennan fjölda af spurningum sem fyrir hann voru lagðar.