135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

179. mál
[14:06]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka í mikilli auðmýkt fyrir þau fallegu orð sem féllu um það að mér hafi tekist að fara í gegnum allar tíu spurningarnar en það er auðvitað ekki mér að þakka heldur er það fyrst og fremst viðurkenning á þeirri góðu lestrarkennslu sem hefur farið fram í barnaskólanum í Bolungarvík.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson spurði mig að því hver þorskveiðin væri sem hlutfall af þeirri veiði sem ég rakti hér áðan. Þorskveiði Færeyinga hefur verið rúmlega þúsund tonn á undanförnum þremur árum. Ýsuveiðin, svo ég taki hana til samanburðar, hefur verið um 1.300 og upp í 1.500 tonn á þessu tímabili. En langstærstur hluti þessarar veiði er vitaskuld veiði á uppsjávarfiski, þ.e. loðnu. Ef ég tek síðasta ár þá var loðnan 30 þús. tonn af 54 þús. tonnum, síldin var 11 þús. tonn og kolmunninn 8.400 tonn. Þetta eru stærðargráðurnar í veiðunum. Það er auðvitað uppsjávarfiskurinn sem ber uppi magnið.

Við göngum til samninga við Færeyinga einu sinni á ári og gert er ráð fyrir að við gerum það öðru hvorum megin við næstu áramót. Það kann að spila inn í að kosningar eru fyrirhugaðar í Færeyjum um miðjan janúar en það getur auðvitað haft áhrif á hvernig þessar samningaviðræður fara fram, hvenær þær fara fram og hvernig þær ganga.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að við höfum verið að taka ákvarðanir um það undanfarin eitt eða tvö ár að liðka til fyrir Færeyinga. Það hefur verið ákvæði í samningnum við Færeyinga um að þeir geti ekki ráðstafað loðnuafla sínum nema til bræðslu, þeir hafa ekki fengið að vinna hann í eigin höfnum nema til bræðslu en þeir hafa getað landað honum til manneldis á Íslandi. Þeir hafa lagt mikla áherslu á að fá þessu breytt og um það hefur verið ágreiningur. Við höfum hins vegar gengið til móts við Færeyinga í þessum efnum og ég tel að við höfum komið ágætlega fram við þá. Vitaskuld eru þessi mál öllsömul undir og þá ekki síst þeir stofnar sem eru í hættu eins og (Forseti hringir.) hæstv. iðnaðarráðherra nefndi varðandi lúðuna.