135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:18]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Enn og aftur fer hæstv. iðnaðarráðherra að hæla sér af mótvægisaðgerðum. Manni verður nánast illt við að hlusta á þetta bull og þessa þvælu um það að þetta sé til þess að leiðrétta og hjálpa fólki á þessum stöðum. Það er ekkert að gera fyrir fólkið á landsbyggðinni. Það er svo sorglegt. Og það er enn þá sorglegra að stjórnmálaflokkur eins og Samfylkingin lofaði því fyrir síðustu kosningar að gera breytingar á fiskveiðistjórninni sem yrði til að færa fólkinu aftur fiskinn. Margir frambjóðendur Samfylkingarinnar héldu því fram að ef þeir kæmust til valda yrðu gerðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Manni sýnist að þeir séu að svíkja öll þau loforð, allir þeir frambjóðendur sem töluðu fyrir þessu í kosningabaráttunni.