135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:19]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þá fyrirspurn sem hann leggur hér fram. Hún er þörf og í rauninni sívirk eða á alltaf að vera uppi. Eins og hér hefur komið fram er hann fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar og ég sit þar í stjórn þannig að ég tek væntanlega við einhverju kefli þar til að fylgja eftir. Mér hins vegar þykir dálítið drjúgt í lagt af hv. þm. Grétari Mar Jónssyni þegar hann er að berja niður þær tillögur sem hér hafa verið bornar uppi af hæstv. ríkisstjórn um mótvægisaðgerðir svokallaðar. Það ber að fagna því ... (GMJ: Þær eru ekki að leysa neinn vanda.) Það ber að fagna því þegar menn leggja til atlögu við þann (Gripið fram í.) vanda sem steðjað hefur að landsbyggðinni. Menn eiga að þakka fyrir það sem vel er gert en það verða alltaf verkefni til að takast á við sem betur fer og nú sjáum við það í tillögum til aðgerðar og stuðnings Vestfjörðum, við sjáum það í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar, að það er vilji til þess að taka á í fyrsta skipti í langan tíma og það ber að þakka. (GMJ: Breytið þá fiskveiðistjórnarkerfinu.)