135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:20]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er merkilegt að sjá hv. stjórnarliða koma upp og halda ekki vatni yfir þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti með svo hástemmdum hætti síðasta sumar. Þá sagði hæstv. ráðherra að það ætti að flytja 80 opinber störf á Vestfirði og að tillögurnar yrðu komnar til framkvæmda áður en þing kæmi saman. (Iðnrh.: 30 sagði ég.) Áttatíu. (Iðnrh.: Nei, nei, nei.) Hver er staðreynd mála? (Gripið fram í: Hringdu í þá.)

Hæstv. forseti. Því miður var það þannig að hæstv. ríkisstjórn vakti gríðarlegar væntingar. Mörg byggðarlög hringinn í kringum landið standa utan við þessar mótvægisaðgerðir og á sama tíma er ríkisstjórnin meðal annars að fækka störfum á Akureyri með því að leggja niður starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Hvert á að flytja það? Til Reykjavíkur! Til Reykjavíkur! Það eru mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart Akureyringum. Svo koma menn hér upp (Forseti hringir.) og hæla sér af þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Svei mér þá.