135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:24]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Það gerðist í haust og sumar að boðaðar voru einhvers konar mótvægisaðgerðir og orðið stórkostlegasta var að mínu mati gengisfellt verulega af hæstv. iðnaðarráðherra vegna þess að þær reyndust ekkert sérstaklega stórkostlegar.

Þetta snýst fyrst og fremst um samkeppnisaðstöðu landsbyggðarinnar. Í stuttu máli þarf að styrkja grunngerðir. Við þurfum að hugsa stærra í samgöngumálum. Við þurfum að huga stærra í menntamálum og við þurfum að skapa einingar. Við þurfum að skapa heild á Norðurlandi. Við eigum að skapa heild á Vestfjörðum og skapa heild á Austurlandi. Við getum skapað þar miðju þannig að svæðin nýtast hvert öðru.