135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:25]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg ótrúleg umræða sem hér fer fram. Það sem ég varð eiginlega mest undrandi yfir er að heyra hv. þingmenn Frjálslynda flokksins og þeirra orðbragð í salnum. Hv. þm. Jón Magnússon talar um að ráðherra standi hér í volæði sínu. Það er nákvæmlega ekkert volæði í gangi hvað varðar byggðamálin. Það sést svo glögglega í fjárlagafrumvarpinu sem núna er verið að vinna með. Þar er verið að setja milljarðatugi í að byggja upp innviðina úti á landi. Það er verið að leggja milljarðatugi í samgöngumál. Það er verið að gera nákvæmlega það sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi í sinni ræðu rétt áðan.

Virðulegi forseti. Ég vil líka segja alveg eins og er að það er merkilegt að heyra hv. þingmenn Framsóknarflokksins koma hér upp og gagnrýna það sem verið er að gera þegar þeir eru búnir að vera með byggðamálaráðherrann árum saman og það gerðist nákvæmlega ekkert í byggðamálum, nákvæmlega ekkert. Það sem hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) er að gera hér (Forseti hringir.) bæði með mótvægisaðgerðum og fleiri aðgerðum eins og átaki í samgöngumálum, er að hefja stórsókn í uppbyggingu landsbyggðarinnar. (JM: Stórsókn til Reykjavíkur.)

(Forseti (MS): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tóm til að flytja sínar ræður.)