135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

framleiðslu- og flutningsgeta í raforkukerfinu.

218. mál
[14:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Herra forseti. Ég þakka iðnaðarráðherra fyrir þessi svör. Það er svo sem ekkert sem kemur beint á óvart í þeim. Ég held að við höfum svo sem gert okkur grein fyrir því að byggðalínan á Norðausturlandi getur ekki flutt meira en þarna er um að ræða, fyrir utan það að rafmagnið er svo sem í fullri notkun núna þótt við vitum og getum frekar gert ráð fyrir því að annars staðar á landinu sé meira borð fyrir báru í framleiðslu á rafmagni.

Það sem vakti athygli mína þegar ég velti þessu máli fyrir mér var sú skylda sem hvíldi á Landsvirkjun í tíð eldri laga, áður en raforkulögin tóku gildi, um að Landsvirkjun ætti að tryggja að ávallt væri til staðar næg raforka í landinu. Þar með átti Landsvirkjun væntanlega að hafa yfirsýn yfir það hversu mikla raforku væri hægt að framleiða. Ég get ekki betur séð en það sé nokkrum vandkvæðum bundið í þessu samkeppnisumhverfi að fá upplýsingar um hvað hægt er að framleiða. Ég er ekki endilega viss um að ég gæti spurt Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja eða Landsvirkjun að því hvað þeir geti framleitt margar gígavattstundir í sínum framleiðslueiningum, þau mundu jafnvel líta á það sem innrás inn í þeirra viðskiptasjónarmið. Þar eru ákveðin sjónarmið á ferðinni vegna þess að við höfum komið á samkeppni og við ætlumst ekki endilega til þess að þessi fyrirtæki gefi nákvæmlega upp hvað þau hafa uppi í erminni, ef svo má segja.

Það vekur samt ákveðnar spurningar um þetta öryggissjónarmið í raforkukerfinu. Það má ekki gleyma því að þessi raforkuver eru oft á viðkvæmum svæðum og væri alveg hægt að hugsa sér að eitthvert þeirra mundi hreinlega lenda í slíkum náttúruhamförum að það lenti út af borðinu. Þá væri áhugavert t.d. að Orkustofnun hefði einhverjar hugmyndir um hvar hún ætlaði að fá það rafmagn sem ekki fengist á viðkomandi svæði. Gefum okkur t.d. að Hekla gysi. Þá gæti komið upp vandamál, bæði á almenna markaðnum (Forseti hringir.) og eins hjá stórnotendum á Suðvesturlandi.