135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

framleiðslu- og flutningsgeta í raforkukerfinu.

218. mál
[14:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þetta er algjörlega rökréttur hugsanagangur hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður bendir á að á fyrri tíð, þegar önnur lög giltu, hafði Landsvirkjun skyldu til að henda mjög nákvæmar reiður á þeirri orku sem hægt væri að fá framleidda í landinu á hinum ýmsu stöðvum. Þá var annað ástand en er í dag, þ.e. þá framleiddu nánast engir raforku nema Landsvirkjun. Landslagið hefur gjörbreyst að því leyti síðasta hálfan annan áratug.

Hins vegar bendir hv. þingmaður á mjög athyglisvert sjónarmið. Hún bendir á nauðsyn þess að menn hafi yfirlit yfir stöðuna á orkumarkaði ef upp kynnu að koma neyðartilvik. Nú er það svo að menn hafa aðeins hugað að þessu sem tengjast raforkukerfinu, t.d. Landsnet. En ég veit einfaldlega ekki sem stendur hvort það sé þannig að þær stöðvar og fyrirtæki sem nú eru í samkeppnisrekstri og hv. þingmaður nefndi hafi lagaskyldu til að gefa upp framleiðslu sína eða áætlanir til nánustu framtíðar. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir. Það er nokkuð sem þarf að skoða ákaflega vel því að þarna þarf að gæta varúðarsjónarmiða.

Hinir ýmsu aðilar sem kerfinu tengjast af opinberri hálfu hafa vissa eftirlitsskyldu en ég er ekki viss um að þeir hafi beinlínis lagaheimildir til að geta dregið slíkt með töngum út úr fyrirtækjum, slíkar upplýsingar, ef fyrirtækin telja það varða við samkeppnishagsmuni. Þetta er athyglisvert sjónarmið sem þarf að skoða.