135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

netþjónabú.

244. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku til máls í umræðunum. Ég vil sérstaklega fagna því að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hann hefði byggðagleraugun uppi þegar horft væri til þessara verkefna. Það er mjög mikilvægt því að ég veit til þess að mörg sveitarfélög á landsbyggðinni hafa horft mjög til uppbyggingar af þessu tagi og ekki síst í ljósi mikilla yfirlýsinga hæstv. ráðherra um þessi mál.

Hæstv. ráðherra sagði að ég væri trúlega fimm til sex mánuðum of snemma með fyrirspurnir mínar. Ég boða því frekari fyrirspurnir um málið þegar líða tekur á næsta ár. Það er mjög mikilvægt að við fáum að fylgjast með því hvernig þessum málum vindur fram.

Hæstv. ráðherra segir síðan að rukka eigi þau sveitarfélög sem ætli að fara í þetta samstarf, hugsanlega Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjallabyggð og fleiri sveitarfélög, og þau eigi að greiða tvo þriðju af umræddum rannsóknarkostnaði. Ég spyr: Hvar eru nú mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar? Hefði ríkisstjórnina, með skuldlausan ríkissjóð, munað um að aðstoða veikburða sveitarfélög sem glíma við tekjusamdrátt og fólksfækkun? Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra getur ekki stuðlað að því að þessar fimm eða sex milljónir sem hvert sveitarfélag á að greiða verði greiddar úr þeim potti sem hæstv. ráðherra hefur gumað sig svo mikið af, sem eru fjármunir til mótvægisaðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar?

Það er áhugavert að fylgjast með þessu máli. En á það ber að líta að í þessum hugmyndum er ekkert minnst á norðausturhorn landsins. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að Þingeyingar og Eyfirðingar eru að berjast fyrir því að byggja upp annars konar atvinnu á Bakka við Húsavík, en því miður er lítill stuðningur af hálfu hæstv. ráðherra og Samfylkingarinnar við það gríðarlega mikilvæga (Forseti hringir.) atvinnuverkefni.