135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar umræðu er samningur Ríkisútvarpsins ohf. og Björgólfs Guðmundssonar um fjármögnun innlendrar dagskrárgerðar fyrir sjónvarp. Það eru ekki liðnir átta mánuðir frá því að ríkisútvarp allra landsmanna var lagt niður og á grunni þess stofnað RÚV ohf. Athyglisvert er að lesa gegnum ræður hæstv. menntamálaráðherra frá síðasta vetri þegar hún fór fram með þetta hjartans mál sitt. Þáverandi stjórnarandstaða tókst harkalega á við ráðherrann um grundvallaratriði málsins en eitt þeirra var að okkar mati menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og innlend dagskrárgerð.

Ýmislegt sem ráðherrann sagði þá fær annað innihald nú eftir að samningurinn við Björgólf Guðmundsson liggur fyrir. Ráðherrann þrástagaðist á því að breytingin væri ekki hvað síst til þess að auka möguleika Ríkisútvarpsins á að efla innlenda dagskrárgerð, lofaði meiri framleiðslu og betri í alla staði, sagði að við værum að taka skref inn í framtíðina, nú yrði loks forgangsraðað í þágu innlendrar dagskrárgerðar.

Nú brennur sú spurning, hæstv. forseti, á þeim sem líta um öxl hvort þessi áform um að koma dagskrárgerðinni að hluta til fjársterkra aðila hafi verið í kortum ráðherrans og útvarpsstjórans þegar málið var til umfjöllunar hér á Alþingi fyrir 10–12 mánuðum. Ef svo er er það mjög alvarlegt.

Fjöldi álitamála hefur risið við þennan gjörning, virðulegi forseti. Ber þar hæst spurninguna um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Hinn útvaldi efnamaður lýsti því við undirskrift samningsins að það skerti frelsi fjölmiðla að þeir væru eingöngu í eigu ríkisins því að ríkið væri einhver versti eigandi fjölmiðla. Nú hefur hæstv. menntamálaráðherra tækifæri til að bregðast við þessum ummælum og ég tel fulla ástæðu til að hún geri það.

Var hæstv. menntamálaráðherra búin að sjá fyrir endann á þessu þegar hún heimilaði að samningurinn yrði gerður? Ég geng út frá því að hún hafi vitað af honum þó að útvarpsstjóri hafi ákveðið að upplýsa ekki stjórn RÚV ohf. um hvað stæði til. Það er margt sem bendir til þess að samningurinn stangist á við lögin sem samþykkt voru hér. Þá er ég að tala um tekjustofnahliðina. Ekki eru milljónirnar 150 nefskattur, þær eru ekki auglýsingar, ekki kostun — til þess er upphæðin trúlega of há — og ekki eru það tekjur sem Alþingi hefur ákveðið. Hverju svarar hæstv. ráðherra?

Önnur spurning sem nauðsynlegt er að hæstv. ráðherra svari varðar auðmanninn sem í hlut á og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hvað réð því að samningur var gerður við þennan tiltekna aðila, Björgólf Guðmundsson, án þess að kannað væri hvort aðrir athafnamenn væru tilbúnir í slíkt samstarf áður? Þetta minnir óneitanlega á það þegar sjálfstæðismenn í borgarstjórn völdu Bjarna Ármannsson einhliða til að koma að dótturfyrirtæki Orkuveitunnar. Hvað um jafnræðisregluna, hæstv. ráðherra? Hvað verður við lok samningstímans, verður þá valinn nýr auðmaður eða mun Björgólfur fá að kaupa sjónvarpið að þremur árum liðnum?

Þá er skömm þeirra sem studdu breytingarnar á Ríkisútvarpinu líklega fullkomnuð. Þá verður orðinn til fjölmiðill í einkaeigu, einkarekinn fjölmiðill, sem almenningur héldi þó uppi með nefskatti. Almenningur mun áfram greiða allt þetta óþægilega, þetta dýra og þetta fyrirhafnarsama eins og dreifikerfið, Rás 1 og annað sem ekki ber sig.

Nú er tilefni, virðulegi forseti, til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Var þetta eftir allt hin raunverulega framtíðarsýn sem hæstv. menntamálaráðherra bar fyrir brjósti fyrir fáum mánuðum þegar málið var borið hér í gegn?

Varðandi frelsi fjölmiðla sem ég talaði um áðan og þá gagnrýni sem borið hefur á, að eitt af álitamálunum varðandi þennan gjörning sé að sjálfstæði Ríkisútvarpsins geti skerst með honum, vil ég segja að ummæli hins nýja fjármögnunaraðila vekja manni ugg í brjósti þegar hann lýsir því yfir að það skerði frelsi fjölmiðla að þeir séu einungis í eigu ríkisins.

Af því sem ég nú hef sagt má draga þá ályktun að styttra sé en okkur grunar í að Björgólfur Guðmundsson eignist sjónvarpsstöð sem hann kemur til með að beita í samkeppni við annan auðmann sem einnig á sjónvarpsstöð. Af því tilefni krefst ég þess að þau stjórnvöld sem leiddu breytingarnar á Ríkisútvarpinu viðurkenni að einkavæðing Ríkisútvarpsins hafi verið markmið frá upphafi eins og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum haldið fram.