135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á þessu máli eru margar hliðar, a.m.k. þrjár, hin lagalega, sú sem snýr að sjálfstæði Ríkisútvarpsins og síðan er það hin pólitíska hlið, hún snýr að hæstv. menntamálaráðherra.

Fyrst um lögin, það er álitamál hvort samningurinn sem hér er til umræðu standist lög sem sett voru um tekjustofna RÚV ohf. Þar er kveðið á um hvert skuli vera hlutfall auglýsinga og kostunar í dagskrárgerð ríkissjónvarpsins og við þurfum að fara nánar í saumana á þeim málum.

Þá er komið að sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Menn deila um það hvort hér sé um að ræða kostun á dagskrárefni í Ríkisútvarpinu. Mér finnst enginn vafi leika á því, enda er um að ræða framleiðslusamning um verkefni sem taka skal til sýningar í ríkissjónvarpinu. Það kveður á um þetta í þessum samningi.

Ég vísa sérstaklega til bókunar Svanhildar Kaaber sem á sæti í stjórn RÚV ohf. en þar segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

„Ég tel að með slíkum samningum og öðrum kostunarsamningum geti einstaklingar eða fyrirtæki skapað sér tækifæri til áhrifa innan RÚV ohf. Mikilvægt er að ætíð sé tryggt að fjármögnun dagskrárgerðar RÚV ohf. standist lög og ýtrustu kröfur sem gerðar eru til óháðs almannaútvarps í eigu þjóðarinnar.“

Undir þessi orð Svanhildar Kaaber vil ég taka.

Þá er komið að hinni pólitísku hlið og hvernig hæstv. menntamálaráðherra hefur brugðist við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram, m.a. af hálfu Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins. Í fréttum Ríkisútvarpsins 13. nóvember sl. talaði hæstv. ráðherra um að menn skýldu sér á bak við óvild í garð Ríkisútvarpsins og minnti á að Hollvinasamtökin hefðu mótmælt hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta í hæsta máta mjög ómerkilegur málatilbúnaður. Ég hef setið ýmsa fundi Hollvinasamtakanna og þar (Forseti hringir.) hefur ekki komið neitt annað fram en velvilji í garð þessarar stofnunar. (Forseti hringir.) Það hefur verið þrengt að Ríkisútvarpinu allar götur frá því um miðjan 10. áratuginn. (Forseti hringir.) Nú á að draga úr spennunni en það á að gera það á nýjum forsendum, (Forseti hringir.) það á að gera það á forsendum handhafa peninganna. (Forseti hringir.)