135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:52]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Útvarpsstjóri, fyrir hönd Ríkisútvarpsins, og Björgólfur Guðmundsson athafnamaður hafa gert samning til þriggja ára um að stórefla íslenska dagskrárgerð í sjónvarpi. Í samningnum kemur fram að sameiginlega muni þessir aðilar tryggja framleiðendum sjónvarpsmynda fjármuni til að hefja framleiðslu á leiknu efni fyrir sjónvarpið. Fram kemur einnig að framlög hvors aðila verði alltaf jöfn, stefnt er að því að gera tvær þáttaraðir á ári og áætlað að á tímabilinu muni 200–300 millj. verða varið til íslenskrar sjónvarpsgerðar. Þessu ber að fagna, og mikilvægt er að mínu mati að tekist hefur að laða nýtt fjármagn að þessari listgrein með þeim hætti. Vonandi fylgja fleiri samningar í kjölfarið.

Ég deili ekki skoðun þeirra sem telja slíkan samning varhugaverðan og jafnvel að hann brjóti í bága við lög. Hér er um að ræða aðild að fjármögnun á verkefnum á vegum sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda þar sem RÚV er þátttakandi og tryggir sér sýningarrétt í sjónvarpi á Íslandi. Í samningnum er ekki að finna útilokun á öðrum samstarfsaðilum, hvorki á vegum framleiðandans né RÚV, og þetta getur ekki að mínu mati brotið í bága við lög eða falið í sér brot á jafnræðisreglu eins og nefnt hefur verið í umræðunni um þennan samning.

Ég deili hvorki áhyggjum þeirra sem telja að Ríkisútvarpið sé með þessum hætti þiggjandinn og þar með háður hinum samningsaðilanum né heldur, eins og fram hefur komið, að einhver vettlingatök verði á umræðu um fyrirtæki háttvirts athafnamanns. Ég verð að treysta því að fagmennska íslenskra dagskrárgerðarmanna og fréttamanna ráði för. Þeir hafa oftar en ekki látið í ljósi þá skoðun að þeir séu algerlega óháðir eigendum sínum og öðrum og ekki ástæða til að halda að starfsmenn Ríkisútvarpsins bregðist við með öðrum hætti en aðrir.

Ég vona sannarlega að þessi samningur verði aðeins sá fyrsti í þessa veru sem RÚV gerir því við (Forseti hringir.) Íslendingar eigum frábæra kvikmyndagerðarmenn. Þetta er listgrein á heimsvísu og með því að efla hana eflum við og rennum stoðum (Forseti hringir.) undir öflugt íslenskt atvinnulíf.