135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Nýir og ferskir vindar blása um Ríkisútvarpið um þessar mundir, m.a. vegna breytinga á rekstrarformi og þess að kominn er nýr útvarpsstjóri, Páll Magnússon. Það er mjög ánægulegt að sjá þessa þróun. Um langt skeið hefur verið allt of lítið íslenskt sjónvarpsefni í sjónvarpinu og þar hefur verið of mikið af bandarískri froðu, því miður, þannig að það er mjög áhugavert að núna eigi að breyta til og sækja fram varðandi íslenskt efni.

Ég vil líka nefna að breytingin hefur nú þegar átt sér stað á Ríkisútvarpinu. Við sjáum mun betri dagskrárgerð þar en við höfum séð áður. Ég vil nefna þar sérstaklega Kastljósið sem er miklu betra í dag en við höfum nokkurn tíma séð það. Það hafa því orðið mjög jákvæðar breytingar á Ríkisútvarpinu.

Við framsóknarmenn viljum alls ekki einkavæða Ríkisútvarpið og það stendur ekki til. Ég vona að áfram geti skapast samstaða um að gera það ekki. Við höfum alltaf andmælt hástöfum þegar þær raddir hafa skotið upp kollinum.

Varðandi þann samning sem nú er til umræðu sjáum við ekki eins og fram kom í máli formanns Framsóknarflokksins, hv. þm. Guðna Ágústssonar, beina meinbugi á þessum samningi. Það hefur komið fram hjá Þórhalli Gunnarssyni, dagskrárstjóra RÚV, að þetta fjármagn rennur ekki inn í rekstur RÚV, það fer til sjálfstæðra aðila sem eru að sinna sjónvarpsefni þannig að við sjáum ekki beina meinbugi á þessum samningi.

Hins vegar ber að taka það fram að það má ekki verða svo að fjársterkir aðilar geti keypt sér mildi eða keypt sér áhrif, t.d. á fréttastofum, þannig að það verður að vera alveg skýrt að svona samningar verði ekki til þess að á nokkurn hátt verði tekið öðruvísi og þá hugsanlega mildara á slíkum aðilum en ella.