135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:56]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða fer fram, ég held að það sé mikilvægt að halda uppi umræðu um Ríkisútvarpið, starfsemi þess og stefnu. Ég vil þó í upphafi segja að ég er mjög ánægður með þetta framlag Björgólfs, að hann skuli leggja til fjármagn í menningarstarfsemi. Eins og hér hefur verið rakið af mörgum er þekkt í sögunni að athafnamenn hafa komið að því að styrkja listgreinar og það er full ástæða til þess að fagna framlagi þeirra. Það geri ég einnig og held að allir þingmenn hafi gert það í þessari umræðu.

Hins vegar hafa sumir bent á og ég held að full ástæða sé til að skoða líka hvort þetta framlag kunni á einhvern hátt að mismuna aðilum á markaði. Það er full ástæða til að skoða það með opnum huga því að hugmyndin og umræðurnar um Ríkisútvarpið á sínum tíma beina miklu meira kastljósinu að Ríkisútvarpinu sjálfu, starfsemi þess og hvernig það hefur breyst í kjölfarið á því að verða ohf. Það er orðið miklu harðara í samkeppninni en áður var og hugmyndin og umræðan sem fram fór á sínum tíma um Ríkisútvarpið var ekki sú að við breytinguna yrði það í óheftri og öflugri samkeppni við þá sem fyrir væru á markaði. Svona fjármögnun þýðir að innkaupsverð verður lægra en ella, það segir sig sjálft þegar svona samningur er gerður, og spurningin sem vaknar í þessu samhengi er: Er kannski ástæða til að skoða það af meiri alvöru að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði? Sú spurning hlýtur að vakna í þessu samhengi. Það mundi þýða að Ríkisútvarpið gæti þá haldið áfram að vinna sína vinnu, Ríkisútvarpið verður áfram til staðar. Ríkisútvarpið fær enn mikið framlag frá ríkinu en um leið skaðar það ekki á nokkurn hátt (Forseti hringir.) önnur fyrirtæki. Og þannig viljum við sjá þennan markað.