135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[16:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu en þó sérstaklega þann undirtón sem hefur verið sleginn um að fólk vilji aukna innlenda dagskrárgerð. Ég held að það sé nokkurn veginn eini samhljómurinn hér nema, jú, það var athyglisvert að fylgjast með því að það er mikill samhljómur í málflutningi vinstri grænna og frjálslyndra í því efni að þeir hafa í rauninni, að mínu mati eftir að hafa hlustað á ræður þeirra, sameinast gegn því að styrkja Ríkisútvarpið. Ég er nefnilega sannfærð um að sá samningur Ríkisútvarpsins sem hér hefur verið til umræðu er til þess fallinn að efla innlenda dagskrárgerð, svo einfalt er það.

Ég undirstrika jafnframt, frú forseti, að það skiptir mjög miklu máli þegar við ræðum samvinnu einkafjármagns og hins opinbera að reglur séu skýrar og matið faglegt og gegnsætt. Eftir því hefur líka verið unnið, þetta liggur alveg ljóst fyrir. Með þessum gjörningi erum við að efla og styrkja innlenda dagskrárgerð.

Varðandi það sem hefur verið sagt hér um það hvort ég hafi heimilað samninginn bið ég bara hv. þingmenn að koma til nútímans. Ríkisútvarpið er sjálfstætt félag. Slíkir samningar koma ekki inn á borð menntamálaráðherra. Þannig er bara nútíminn í dag og við það verða menn að una. Þetta er sjálfstæð ákvörðun þeirra sem stjórna Ríkisútvarpinu og ég tel þetta fagnaðarefni að því leytinu til að mér finnst Ríkisútvarpið vera að svara því kalli sem við höfum heyrt í þessari umræðu, í langri umræðu á síðasta þingi, þ.e. að við viljum aukið innlent dagskrárefni, við viljum aukið innlent efni í Ríkisútvarpinu. Ég tel Ríkisútvarpið sýna með þessum gjörningi sem og með athöfnum sínum nú á haustdögum að það er að svara kalli fólksins.