135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

staða kjarasamninga sjómanna á smábátum.

238. mál
[18:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Frú forseti. Tilefni spurningar þeirrar sem ég beini til félagsmálaráðherra er sú staðreynd að sjómenn á bátum undir 12 tonnum hafa aldrei í sögunni haft kjarasamning. Á árum áður voru sjómenn á trillum einyrkjar og þurftu lítið annað en að semja við sjálfa sig um kaup og kjör. Síðan hafa aðstæður breyst og smábátar í dag eru orðnir stærri í rauninni. Þótt þeir séu bara mældir 12–15 tonn hafa þeir fjögurra og fimm manna áhöfn. Nú eru á bilinu 450–600 sjómenn á smábátum sem ekki hafa kjarasamning.

Það eru engir kjarasamningar til. Sjómenn þurfa að hlíta því að útgerðarmaðurinn ákveði skiptaprósentu, fiskverð og jafnvel hvort þeir borgi kauptryggingu eða ekki. Eins snýr málið að ákveðnum þáttum í sjúkratryggingum sem sjómennirnir búa við. Það fer ekki eftir neinum leikreglum og er geðþóttaákvörðun útgerðarmanns á hverjum tíma.

Þess vegna spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra: Hvað finnst ráðherra um þá staðreynd að kjarasamningar skuli ekki hafa verið í gildi fyrir sjómenn á bátum undir 12 brúttólestum? Finnst ráðherra ekki rétt að láta kanna réttarstöðu sjómanna á smábátum sem eru án kjarasamninga?