135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

aðgerðir lögreglu gegn þeim sem nota netið í glæpsamlegum tilgangi.

235. mál
[18:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er eins með netið og möguleika hins rafræna heims og fleiri mannleg fyrirbæri, að jafngott og það er til síns brúks og jafnmikið frelsi og það veitir, getur það líka verið vandmeðfarið. Því miður hneigjast ýmsir til þess að nota netið einnig í vafasömum tilgangi, jafnvel beinlínis til lögbrota eða glæpsamlegrar starfsemi og hegðunar. Vandi fylgir vegsemd hverri. Frelsið má misnota og frelsi eins er ekki frelsi ef það er á kostnað frelsis og velferðar annarra.

Með netinu opnast aðgangur utan frá inn á velflest heimili, að minnsta kosti hins vestræna heims, og þannig er það hér á landi þar sem netnotkun er með því mesta sem þekkist. Þar með opnast aðgangur að öllum heimilismönnum, jafnt börnum og unglingum sem tileinka sér ung að árum möguleika þessarar tækni og verða jafnvel virkir þátttakendur á spjallrásum og ýmiss konar samskiptum á netinu.

Ég nefndi það aðspurður í spjallþætti síðastliðinn vetur að mér fyndist einboðið að lögreglan hlyti að beita sér gegn lögbrotum og glæpum sem fram færu á þessu sviði, á þessum vettvangi eins og öðrum. Reyndar var umræðuefnið sérstaklega að sporna gegn klámvæðingu samfélagsins, vændi, mansali og ekki síst tilraunum til kynferðislegrar misnotkunar á börnum.

Af þessu varð nokkur hvellur og þáttastjórnendur og ýmsir spunadoktorar lögðu hlutina þannig upp að það hlyti þá að snúast um tilraunir til allsherjarritskoðunar í kínverskum anda á netinu. Slíkt var og er fjarri mínum huga. Ég hef þó aldrei séð nein rök standa til þess að lögregluyfirvöld, þau sem eiga að gæta réttinda borgaranna og koma í veg fyrir lögbrot, hljóti ekki að beita sér þarna eins og annars staðar, ekki síst þegar jafnviðkvæm mál eiga í hlut eins og þekkt er og tilraunir barnaníðinga til að komast í samband við fórnarlömb yfir netið.

Lögreglur nágrannalandanna hafa flestar þegar skipulagt sig í þessum efnum fyrir allnokkrum árum og reka virka starfsemi til að reyna að hafa upp á og koma lögum yfir þá sem nota netið með þessum hætti. Nefna má Kripos, sérdeild norsku lögreglunnar, og fleiri í því sambandi.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hvernig regluverk og umbúnað telur hæstv. ráðherra vera heppilegust fyrir lögreglustarfsemi tengda netinu? Hefur dómsmálaráðuneytið tekið til skoðunar að heimila lögreglunni að beita forvirkum aðferðum í baráttu gegn barnaníðingum (Forseti hringir.) og eftir atvikum öðrum sem nota netið, eða reyna að nota netið í glæpsamlegum tilgangi?