135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

aðgerðir lögreglu gegn þeim sem nota netið í glæpsamlegum tilgangi.

235. mál
[18:17]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu atriði í þinginu. Það var sagt frá því fyrir skömmu að gerð var atlaga að Eistlandi og reynt að brjóta niður alla netstarfsemi innan þess lands. Það er því full ástæða fyrir ríkið að huga að úrræðum til að verja netstarfsemi innan landamæra sinna og við þurfum að huga að því eins og aðrar þjóðir og m.a. þess vegna höfum við gerst aðilar að samningi Evrópuráðsins um tölvubrot. Á löggjafarþinginu 2005–2006, 132. löggjafarþingi, voru samþykkt lög og breytingar á almennum hegningarlögum sem taka mið af þessum samningi. Ég tel því að við séum með löggjöf hér á landi sem standist þær kröfur sem gerðar eru og að við höfum í sjálfu sér lagaumgjörð til að bregðast við þeim vanda sem menn standa frammi fyrir þegar hugað er að öryggi í netheimum.

Varðandi starfsemi lögreglunnar, sem líka er spurt um, þá er frá því að segja að í löggæsluáætlun fyrir árin 2007–2011 er talað um nauðsyn þess að búa þannig að lögreglunni að hún hafi til yfirráða nauðsynlegan tækjabúnað og fullnægjandi þjálfun til að sinna rannsóknum á rafrænum sönnunargögnum. Nú þegar er hafin vinna við þetta mál og unnið er samkvæmt þessari áætlun og lögreglan fylgist auk þess mjög vel með því sem er að gerast á alþjóðavettvangi að því er þetta varðar.

Þá er spurt um forvirkar aðferðir í baráttunni gegn barnaníðingum og hvort ráðuneytið hafi tekið til skoðunar að heimila lögreglunni að beita slíkum aðferðum. Því má svara í stuttu máli að ráðuneytið hefur að sjálfsögðu litið til þeirra aðgerða sem unnt er að gera í því skyni. Ríkislögreglustjóri hefur nú á haustmánuðum athugað sérstaklega hvernig best sé að berjast gegn ofbeldi gegn börnum, ofbeldi sem tengist netinu, og hefur tekið upp samstarf við samtökin Barnaheill sem hafa unnið mjög gott starf á þessu sviði og til stendur að ríkislögreglustjóri taki að sér að reka svokallaða ábendingalínu sem Barnaheill kom á fót. Þessi lína hefur fært lögreglunni upplýsingar um ólögmætt efni og þeim upplýsingum hefur m.a. verið miðlað til samstarfsaðila lögreglunnar í öðrum löndum. Gert er ráð fyrir því að lögreglan taki það alfarið að sér að reka þessa ábendingalínu frá og með haustinu 2008.

Þá hefur ríkislögreglustjóraembættið einnig unnið að því í samvinnu við Barnaheill og netþjónustuaðila á Íslandi að koma upp hér síu á myndefni sem ætti að koma í veg fyrir dreifingu á myndum sem tengjast ofbeldi gegn börnum og barnaklámi. Þetta er samnorrænt verkefni, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, sem hefur skilað góðum árangri í Noregi og Danmörku. Í næstu viku munum við ráðherrar dómsmála á Norðurlöndunum hittast í Noregi til að kynnast betur hvernig Norðmenn standa að þessu.

Hér á landi hafa netþjónustuaðilar tekið vel í að verða þátttakendur í þessu verkefni. Þá hefur einnig verið kannað hér að koma upp svokölluðum rauðum hnappi sem lögregla setur og þá er hægt að ýta á þann hnapp til að tilkynna lögreglu ef um óeðlileg samskipti er að ræða á netinu eða eitthvað slíkt sem menn telja varhugavert fyrir börn og að þessu er unnið.

Þá vil ég líka láta þess getið að lögreglan hefur átt þess kost að kynna sér starfsemi á þessu sviði hjá FBI í Bandaríkjunum, Europol og Interpol, því að alþjóðleg samvinna er mjög brýn, sérstaklega þegar hugað er að ofbeldi gegn börnum eins og menn vita sem fylgjast með fréttum um þessi mál, og ég tel að hér sé unnið skipulega að því að tryggja að lögreglan hafi þá þekkingu sem best er í heiminum. Við þurfum síðan einnig að búa þannig um hnútana að tæknilega sé unnt að sinna þessu verkefni og ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður lýsti og ég er sammála honum um að að sjálfsögðu þurfi að grípa til ráðstafana til að tryggja öryggi á þessu samskiptasviði manna eins og öðrum.