135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

aðgerðir lögreglu gegn þeim sem nota netið í glæpsamlegum tilgangi.

235. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin og lýsi ánægju minni með þau í öllum aðalatriðum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi mál eru nú í vinnslu hér á ýmsan hátt og að við erum farin að taka þau miklu fastari tökum en gert var áður. Ég held að það megi alveg segja að menn hafi verið svolítið óviðbúnir því að þessir hlutir færu að gerast hér á landi eins og annars staðar, sem auðvitað hlaut að verða.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að vinna þetta í góðu samstarfi við aðila eins og hér voru nefndir, Barnaheill og netþjónustuaðila. Það hefur skilað miklum árangri erlendis og það er einmitt þannig að þeir aðilar sem veita þjónustu og stunda rekstur sem tengist netinu eiga mjög mikið undir því að það sé ekki misnotað. Öllum sönnum unnendum netsins og möguleika hins rafræna heims, eins og ég veit að hæstv. ráðherra er — hann er frægur fyrir frumkvæði sitt í þeim efnum að gerast virkur þátttakandi á því sviði — er ljóst að það eru einmitt þessir aðilar sem eiga að standa vörð um frjálst net sem getur þjónað sínum tilgangi án þess að það sé misnotað.

Það er augljóst að alþjóðlegt samstarf er líka mikilvægt enda yfirleitt og mjög oft um að ræða aðgerðir sem taka til margra landa og kalla á mikla samræmingu. Þess vegna er eðlilegt að t.d. ríkislögreglustjóri við aðstæður eins og okkar eða lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu séu lykilaðilar í slíkri uppbyggingu. Það þarf líka að vera hægt að fylgjast með því að netið sé ekki misnotað á annan hátt, afbrotin og glæpirnir geta auðvitað verið fleiri en þeir sem við höfum gert hér sérstaklega að umræðuefni án þess að ég ætli beinlínis að fara að blanda mér í það hvort (Forseti hringir.) þjóðaröryggi sé í húfi ef gerð yrði atlaga að tölvukerfi landsins í heild eða eitthvað því um líkt, eins og hæstv. ráðherra nefndi. (Forseti hringir.) En ég fagna því sem hér kom fram um það sem í gangi er á þessu sviði.