135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fullorðinsfræðsla.

223. mál
[18:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það verður áhugavert að sjá frumvarpsdrögin næsta vor. Ég ítreka þó, eins og komið hefur fram hjá þeim sem hér hafa til máls tekið að þetta eru ansi flókin mál. Það skiptir miklu að móta stefnu út frá skýrum hugtökum og skilgreiningum þannig að löggjöf sé ekki of miðstýrandi og byggi á þeirri reynslu sem við eigum.

Ég vil halda því til haga að ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál af því að við lifum í breyttum heimi og mjög breytilegum heimi. Sumir kalla þetta póstmódernískan heim, hér blasir við allt annar heimur á tíu ára fresti. Þess vegna held ég að lýðræðisrökin sem ég nefndi áðan séu geysilega mikilvæg, að við getum áfram haldið að vera samfélag með virkri þátttöku allra borgara. Eins er um jafnræðisrökin, að fólk eigi þetta seinna tækifæri til að bæta líf sitt, vil ég segja, sækja sér meiri menntun þótt það ljúki henni ekki innan hins formlega skólakerfis.

Ég fagna því að þessi vinna sé í gangi og mun fylgjast grannt með henni. Ég tel að þetta sé talsvert mikið hagsmunamál fyrir þá sem vilja veg menntunar sem mestan.