135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla.

240. mál
[18:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vona að ég nái að svara hv. þm. Auði Lilju Erlingsdóttur með þetta. Við erum örugglega sammála um margt en mér heyrist ekki um allt. Það kemur fram hér á eftir.

Í 64. gr. stjórnarskrár Íslendinga er kveðið á um trúfrelsi í landinu en samkvæmt henni er hin evangelíska lúterska kirkja einnig þjóðkirkja Íslendinga. Á þeim grunni hefur 2. gr. grunnskólalaga, markmiðsgreinin, grundvallast og verið nánast óbreytt frá grunnskólalögunum frá 1974.

Í frumvörpum til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem lögð hafa verið fyrir Alþingi eru m.a. lagðar til breytingar á þeim atriðum sem fram koma í þessari fyrirspurn og hv. þingmaður kom inn á áðan. Í frumvarpinu um ný lög til grunnskóla eru lagðar til breytingar á 2. gr. laga þar sem fjallað er m.a. um kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla. Í fyrsta lagi eru gerðar breytingar á ákvæðinu um starfshætti grunnskóla í þá veru að bætt er við ákvæði um að starfshættir skuli mótast af jafnrétti og ábyrgð. Einnig er kveðið á um að starfshættir skuli mótast af umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi, en þessi hugtök eru kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði í aðalnámskrá grunnskóla. Er þessi breyting m.a. í samræmi við ábendingar frá ýmsum aðilum, m.a. frá Mannréttindadómstól Evrópu og um hana ríkir almenn sátt.

Í frumvarpi til nýrra laga um leikskóla er einnig lagt til að í stað ákvæðis 2. gr. í gildandi lögum um kristilegt siðgæði barna komi ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund þeirra. Þessi almennu siðferðilegu gildi samfélagsins sem fram koma í frumvarpi um ný lög til grunnskóla eiga við alla hópa, burt séð frá því hvaða trú eða lífsskoðanir menn aðhyllast. Hin siðferðilegu gildi verða að endurspeglast í öllu skólastarfi. Umfjöllun um þau og forsendur þeirra eiga heima í öllum námsgreinum.

Ástæða þess að siðgæði hefur tengst kristni í markmiðsgrein grunnskólalaga svo lengi sem raun ber vitni á sér bæði menningarlegar og sögulegar forsendur. Menning okkar og menntun hefur vaxið úr jarðvegi kristninnar og í upphafi tengdust skólar á Íslandi kirkjunni sterkum böndum. Kristni og kristið siðgæði eru samofin menningu okkar, siðum, siðferði og sjálfsvitund. Kristni setur raunar mark sitt á skólastarf með ýmsum hætti, ekki einungis í námskrá og lögum, heldur er einnig gefið frí í skólum á kristnum hátíðum á borð við jól og páska og vona ég að þingmaðurinn telji það ekki til ama.

Ég tel mjög varasamt, frú forseti, að gera lítið úr mikilvægi kristni og kristins siðgæðis og láta sem kristindómurinn skipti Íslendinga engu máli. Þar með værum við komin út á hættulega braut og í raun farin að vega, að mínu mati, að einni af grundvallarstoðum sem hefur mótað okkur sem þjóð á undanförnum árum. Við eigum ekki að vera feimin við að segja að við séum kristið samfélag.

Vissulega er mikilvægt að við eflum þekkingu og skilning skólabarna á öðrum trúarbrögðum, það er sjálfsagt og það er eðlilegt og ég vona að það sé óumdeilt. Við eigum að kynnast fleiri trúarbrögðum en kristni og ekki síður hefðum annarra menningarsvæða. En það má ekki verða til þess að við afneitum því sem við erum og þeirri sögulegu, þeirri trúarlegu og þeirri siðferðilegu þróun sem hefur mótað okkur sem íslenska þjóð, mótað íslenska tungu og ekki síst íslenska menningu. Ef við værum að fara út af þeirri braut fyndist mér við vera allt að því að afneita sögunni og ég teldi það glapræði.