135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fundarstjórn.

[21:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér með hvaða hætti þetta þinghald í dag hefur verið ákveðið. Við erum nú að upplifa framhaldsfund þegar dagskrá var í rauninni tæmd en samkvæmt uppsettri dagskrá átti þingfundi að ljúka fyrr í dag en síðan var tekin ákvörðun um að fresta honum til kvölds. Ég vil spyrja forseta: Var sú ákvörðun að breyta dagskrá innan dagsins frá því sem ákveðið hafði verið tekin í samráði við aðra forseta þingsins og þingflokksformenn?

Hitt er svo að ég geri athugasemdir við þau vinnubrögð forseta að frú forseti sé að dreifa nefndarálitum, dreifa tillögum svo síðla kvölds sem eiga að koma á dagskrá á morgun, þ.e. við 2. umr. fjárlaga. Ég vil vekja athygli forseta á því að samkvæmt þingsköpum ber fjárlaganefnd að ganga eftir því við aðrar nefndir þingsins og aðra þá sem vinna að undirbúningi við gerð fjárlaga að þeir skili af sér umsögnum sínum og vinnu tímanlega fyrir 2. og 3. umr. fjárlaga. Þetta hefur fjárlaganefnd gert. Hún hefur sett mjög ströng tímamörk á skil á álitum frá öðrum nefndum þingsins og það hefur í öllum meginatriðum staðist vel. Þess vegna skýtur þetta fullkomlega skökku við nú ef þingið og frú forseti ætla að fara að dreifa nefndarálitum, dreifa gríðarlega viðamiklum breytingartillögum við eitt stærsta mál þingsins sem eru fjárlögin, fjárlagafrumvarpið, örfáum klukkutímum áður en það á að fara til 2. umr. Við þingmenn sem erum í stjórnarandstöðu höfum alls ekki séð útfærslu á þessu og eigum að undirbúa okkur á svo skömmum tíma.

Ég tel reyndar að ef þingsköpin eru grannt lesin þá standist þessi vinnubrögð ekki. Ég hvet því forseta til að hlutast til um að 2. umr. um fjárlög verði frestað, hún komi ekki á dagskrá á morgun heldur verði frestað til föstudags eða fram yfir helgi. (Forseti hringir.) Þetta er eitt stærsta mál þingsins og þessi vinnubrögð eru fullkomin vanvirða við eitt stærsta mál þingsins sem fjárlögin eru.