135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fundarstjórn.

[21:18]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er vissulega margt til í þeim athugasemdum sem úr þessum ræðustóli hafa komið frá hv. þingmönnum Vinstri grænna sem lúta að því sem snýr að verklagi og tíma sem mönnum er gefinn til að fara ofan í stór mál. Ég skal vera fyrstur manna til að taka undir að það væri miklu betra ef við hefðum rýmri tíma til margra hluta, til að setja okkur inn í það sem hér kemur til umræðu. Í því liggur ákveðinn vandi, einnegin að skipta þá með sér verkum þannig að þingflokkar beiti ákveðnum þingmönnum á tiltekin mál. Þannig hefur verkaskipting orðið til og við reynum að sérhæfa okkur í tengslum við þær nefndir sem okkur er skipað til af þingflokkum okkar.

Svo háttar til að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd hafa í ágætu samstarfi við stjórnarmeirihlutann lokið vinnu sinni eins og kom áðan fram í orðum hv. formanns fjárlaganefndar, Gunnars Svavarssonar, ásamt okkur í góðri sátt um verklag og vinnubrögð. Það hefur verið kappkostað í allri þeirri vinnu, undir forustu hv. formanns, að upplýsa um alla þætti í vinnu fjárlaganefndar við gerð þess frumvarps sem við afgreiddum út úr nefnd á mánudaginn. Ekki veit ég hvernig þetta er unnið í öðrum þingflokkum en í þingflokki okkar sjálfstæðismanna upplýsa fulltrúar okkar í nefndum, sem skiluðu fjárlaganefnd álitum sínum í síðustu viku og gerðu grein fyrir þeim, samflokksmenn sína um helstu drætti í álitum viðkomandi nefnda. Sömuleiðis gerum við fjárlaganefndarmenn það að lokinni afgreiðslu nefndarinnar á fjárlagafrumvarpi í þingflokki okkar. Þannig komum við upplýsingum áfram en ég skal fyrstur manna, eins og ég nefndi áðan, viðurkenna að oft gefst skammur tími til undirbúnings.

Eina svar okkar við því í þessari stöðu eins og málum er skipað í dag er það að leggja okkur fram um að koma til þingsins úr þessum ræðustóli sem gleggstum upplýsingum um þær breytingar og þær tillögur sem fjárlaganefndin leggur til umræðunnar á morgun. Það verður gert og það kemur í hlut þess sem hér stendur og ræðir málin að koma þeim upplýsingum á framfæri á morgun. Ég heiti því hér að leggja mig fram um að koma því fram í sem ítarlegustu máli og með sem gleggstum hætti.